fimmtudagur, 22. mars 2012

66. Peysuföt fyrir alla.

Snemma á þessu bloggi fjallaði ég um peysufötin mín. Í haust kom systurdóttir mín að máli við mig og spurði hvort ég hefði ráð með að aðstoða hana við að klæðast íslenskum búningi á árshátíð Menntaskólans en þar er hefð að efstubekkingar klæðast þannig. Við mamma tókum að okkur verkefnið og við hittumst allar hjá mömmu þar sem við prófuðum upphlut mömmu og fötin mín og niðurstaðan varð sú að ég þræddi saman mín föt en hún notaði svo húfuna hennar mömmu.
 Hér er búið að þræða upp og niður og kenna á slifsið og fleira mikilvægt.
 Vinkona hennar á svo heiðurinn af greiðslunni sem óneitanlega byggir á gömlum grunni. Mér fannst eiginlega stórmerkilegt hvað gekk vel að aðlaga fötin þar sem munar líklega einum 25 kílóum á okkur frænkum. Ég var svo að fara tína þræðingarnar úr til að hafa fötin tilbúin handa mér fyrir skírnina þegar ég áttaði mig á að stóra nafna mín, sú sem á að fermast í sumar, væri væntanleg og hugsaði að ekki væri nú leiðinlegt að prófa að máta á hana líka og taka myndir.
 Það tókst aldeilis prýðilega svona til myndatöku en óneitanlega var nokkurt pláss ónotað enda barnið bara 13  ára. Við Elsa smelltum af í gríð og ergi á þrjár myndavélar og voru áreiðanlega teknar hátt í hundrað myndir.
Þarna greip hún gítar langafa síns ofan af vegg til að fá tilbreytingu í tilveruna.
Til samanburðar er svo hér ein af þeirri gömlu. Þarna ber hárið enn merki þess að hafa verið litað svart í þágu leiklistarinnar.

þriðjudagur, 20. mars 2012

65. Endurskipulagning.

Um helgina nýlega þegar allt var að gerast, bæði frumsýning og skírn með öllu tilheyrandi kom hann Jóhann Smári með fjölskylduna til að taka þátt.
Hann var fljótur að átta sig á því að baukasafnið í lægri eldhúshillunum hjá ömmu þarfnaðist gagngerrar endurskipulagningar.
Svo er gott að tylla sér á hentugt sæti og líta yfir vel unnið verk.

laugardagur, 17. mars 2012

64. Engillinn hennar Ellu Rutar

Ekki gengur nú að láta fína dótabloggið mitt mygla. Ég hef síðustu mánuði kembt nytjamarkaði í búningaleit og auðvitað litaðist ég þá um í dótadeildunum. Hjá Samhjálp í Reykjavík hitti ég lítin indælan engil og tók hann að mér. Hann hefur litla vírlykkju á kollinum og ég sá hann fyrir mér hangandi á jólatré í góðum félagsskap.
Þegar við tengdadóttir vorum svo að bollaleggja skírn og í framhaldi af því topp á kransaköku, þá auðvitað var umræddur engill alveg kjörinn í hlutverkið.
Nú er sá litli í eigu litlu nöfnu minnar og ég sé hana fyrir mér eftir fáein ár koma tifandi á stuttum fótum að jólatrénu sínu og hengja hann upp á grein.