Eins og fram hefur komið er það grundvallaratriði að hafa skúfhólk með peysufötum. Ég man ekki hvert var aðalerindi mitt suður hérna um árið, 1995 held ég, en ég var þar eitthvað með pabba og við vorum boðin í mat ásamt Siggu frænku til Dísu systur þeirra. -Herdís Elísabet Jónsdóttir f. 5. júní 1924.- Þar kom fram í okkar spjalli að ég færi á stúfana morguninn eftir að kaupa mér hólk. Þá litu þær hvor á aðra og sögðu að ég skyldi nú hinkra aðeins með það. Svo sýndu þær mér fallega muni frá mömmu þeirra, ömmu minni, sem þær voru bara heldur glaðar með að yrðu í notkun í ættinni. Raunar gáfu þær mér meira en ég þurfti því að þær fengu mér tvo hólka, nælu og svuntuhnapp sem á var letrað stórt A.!!! Einn grip fékk ég í viðbót sem fer í næstu færslu. Svo fékk ég að láni frá þeim svuntu og slifsi sem ég notaði þegar ég fermdi yngsta soninn. Þá var ég nefnilega ekki búin að koma upp mínu slifsi og svuntunni frá Ingu.
Annar hólkurinn var svona sexkantaður en hinn hringlóttur. Ég ákvað þá strax með sjálfri mér að þar sem við systur erum bara tvær og hin heitir auk þess eftir ömmu þá ætti hún að fá hnappinn og annan hólkinn. Ekki þó fyrr en hún sýndi áhuga á að fara nota slíkt. Svona gripir eiga ekkert að daga uppi í skúffum og hillum finnst mér. Ég gat samt ómögulega verið að bíða lengur en lét hana hafa þá í fimmtugsafmælisgjöf í haust. Nú bíð ég spennt eftir að hún hefji saumaskapinn :)
Dúkurinn á myndinni er frá Siggu frænku.