Sýnir færslur með efnisorðinu Bloggið. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Bloggið. Sýna allar færslur

miðvikudagur, 23. júlí 2014

84. Bylur hæst í tómri tunnu??

Nú fór ég af rælni inn á þetta blogg og fór að lesa elstu færslurnar. Það var gaman. Þá fór fjöldi athugasemda jafnvel stundum yfir tuginn! Ég hrökk við þegar ég rak augun í að fjöldi heimsókna er nákvæmlega 17.000!!
Ekki er traffíkin samt mikil nú orðið. Enda sjaldan skrifað. Þetta bítur í skottið hvað á öðru býst ég við.
Nú skulum við samt sjá færslu:
Mamma flutti síðastliðið haust úr húsinu sínu og lét það eftir syni mínum og fjölskyldu hans. Ég hef hana grunaða um að hafa þumbast við þar til einhver afkomandinn sýndi áhuga á að búa þar, en það var orðið heldur umfangsmikið fyrir aldraða manneskju. Það eru nokkur handtök að taka saman það sem safnast hefur upp í rúmlega hálfrar aldar búsetu á sama stað og af því að ég veit að þið látið það ekki fara lengra, þá er ég ekki ekki frá því að ég sæki söfnunaráráttuna til móður minnar. Nú veit ég fyrir víst að hún fussar ef hún les þetta en það gerir ekkert til.

Hún rétti mér þessa tunnu til varðveislu. Ég man vel þessa tunnu en hún skipti mig svo sem litlu máli þegar ég var krakki, hún var bara þarna. Nú hef ég þroskast :)
Mamma sagði að pabbi hefði rennt gripinn úr afgangskubb eftir að hafa smíðað þriggja hæða kojuna undir eldri bræður mína. Sú koja var öndvegis gripur sem ekki er lengur til sem slík, mamma er löngu búin að smíða úr henni eitthvert handverk og selja. Það liggur í augum uppi að efsta hæðin í þriggja hæða koju hlýtur að vera afar eftirsóknarverður staður fyrir fárra ára gamalt stúlkubarn og óhugsandi að komast svo hátt nema hægt sé að fá einhvern til að lyfta sér. Þetta allt saman varð til þess að þekkt vísa lengdist og var (og er enn) alltaf svona í mínum munni:
Allir krakkar, allir krakkar
eru í skessuleik.
Má ég ekki mamma
með í leikinn þramma?
Mig langar svo, mig langar svo
að lyfta mér á kreik
og koju.

Ef ég kynni að skrifa nótur skyldi ég gera það fyrir ykkur en síðustu tvö orðin og þau lang mikilvægustu eru sungin með löngu oooi. Hvern langar svo sem upp á þennan kreik?? Ekki mig sko, hafði enda ekki minnstu hugmynd um það hvar hann væri og fullkomlega óhugsandi að hann gæti verið skemmtilegri en efsta kojan. Einhverjum árum síðar man ég okkur Óla að tafli í miðkojunni. Okkar skákir voru að mig minnir yfirleitt frekar stuttar.
En nú hefur mig borið af leið, ég var að tala um tunnuna. Mamma segir mér að til hafi verið lok en ég held ég muni ekkert eftir því. Á hana hafa verið gerðar rákir með brennipenna til að afmarka tunnustafina en þær eru orðar máðar eins og gripurinn allur, enda trúlega gert seint á sjötta áratug síðustu aldar. Ég held þetta hafi ekki verið leikfang, heldur svona krús undir sitt lítið af hverju. Spyr mömmu ekki núna því það er komin nótt og þá á ekki að vera að ónáða fólk þó að málefnið sé mikilvægt.
Uppfært: Þetta reyndist skrök með kojuna, ég er að rugla, það var náttúrulega stóllinn hér sem tengist kojunni en ekki litla tunnan.
Tunnuna renndi pabbi 1953 eða þar um bil þegar þau bjuggu í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Þar í skólanum var smíðastofa með rennibekk. Kojukaflinn má samt vera hér þó að ekki viti ég um neina mynd af henni, því miður.

mánudagur, 17. október 2011

42. Athugasemdir


Mér finnst afar sorglegt að ég skuli ekki fá að njóta athugasemda ykkar af því að fólki sem ekki er með bloggsíðu sjálft tekst ekki að setja þær inn. Hafið þið prófað svona?

Sendu inn athugasemd

(Hér er reitur til að skrifa textann inn í)

 Select profile

Nú smellir þú á select profile og þar færð þú möguleikann Name/URL og færð þetta:

Edit profile




Þarna getur þú kvittað og ég held að þú þurfir ekki einu sinni að skrifa netfang en er þó ekki viss.
Næst kemur þá líklega staðfestingarorð sem þú skrifar og þá hlýtur þetta að vera komið. Svona kvittaði ég alltaf hjá Fríðu áður en ég fór að blogga sjálf og það gekk fínt.


Látið mig endilega vita ef þetta gengur ekki 

sunnudagur, 2. október 2011

40."Nýju" gangljósin

Í  þessari færslu skrifaði ég um ljósin á ganginum niðri. Þá finnst mér rétt að ljúka þeirri sögu hér líka, ég er mjög ánægð með útkomuna, ekki síst hve lagnirnar eru mikið nettari núna.
Um lagfæringarnar niðri að öðru leiti fjalla ég á hvunndagsblogginu þó að segja megi að ekki séu skörp skil á efninu þar sem ég er að tala um lagfæringar og viðhald á húsi sem er hátt á sjötugsaldri.

laugardagur, 10. september 2011

36. Lyftum oss á kreik

Ég verð alltaf fyrir einhverjum töfum við endurskipulagningu baukasafnsins en hér er mynd sem ég tók um daginn af lyftiduftsdeildinni. Ef þið labbið um og haldið að þarna séu sumir baukar eins þá er það mesti misskilningur, það munar stundum á texta og svo eru sumir strikamerktir og aðrir ekki.
Nú skríðum við í fimmþúsund innlit á þessu bloggi.

fimmtudagur, 31. mars 2011

18. Bakgrunnar

Ég er ekki hetja þegar kemur að tæknimálum í tölvu. Varð hálffúl í gær þegar ég bjó mig undir að setja inn nýja færslu hér og sá að búið er að breyta innsetningunni. Nú, ég krafsaði mig fram úr því og fann þá í leiðinni nýja bakgrunnsmöguleika. Nú get ég sett inn mínar eigin myndir og þær margfaldast þá á skjánum. Þetta er samt ekki eins einfalt og maður gæti haldið. Ekki er vert að hafa myndirnar mjög dökkar og ekki með mjög mörgum smáatriðum. Það verður svolítið yfirþyrmandi þegar það margfaldast. Mér líkar heldur ekki að flöturinn er að hluta gegnsær og þá verður lesmálið óskýrara. Ég var að reyna að setja skýrasta letrið sem í boði var. Nú er ég búin að renna yfir myndasafnið mitt og leita að nýtilegum grunnum og tína út einar tíu myndir sem ég prófaði.
Þessa setti ég fyrst. Þetta er litlubaukadeildin á eldhúsveggnum.
Hún er heldur dökk og smágerð.
Uppfært: prófaði að lýsa myndina og skera ofan og neðan af.

Kannski prófa ég hana aftur seinna.
Þetta er sú sem er hér allt um kring núna:
Vegghleðslan í garðinum hjá mér. Hún er vissulega þjóðleg og vísar í gamla tímann.
Þessar gætu notast líka:
Blóðberg stendur alltaf fyrir sínu.
Hraunkaðlarnir eru flottir.
Kindurnar virka tæplega nógu vel.
Baukarnir uppi á svefnherbergisskápnum vísa í eitt helsta bloggefnið.
Kannski maður skipti af og til.

sunnudagur, 13. mars 2011

14. Vettlingar

Stefnan er að blogga helst ekki mikið sjaldnar hérna en svosem vikulega.
Einhvern tíma endur fyrir löngu prjónaði Herdís langamma (sjá 8. og 13. bloggfærsluna) vettlinga sem hún gaf vinkonu sinni. Þeir eru í fimm litum úr fínt spunnu þeli.
Þegar bæði eigandinn, sem ég man ekki nafnið á vegna þess líklega að ég þekki engin deili á henni, og vettlingarnir voru orðin gömul og snjáð gaf konan Dísu föðursystur umrædda vettlinga. Kannski ekki síst vegna þess að Dísa er nafna ömmu sinnar. Dísa gaf mér svo vettlingana og þó að hún hafi ekki tekið það sérstaklega fram þá geng ég út frá því að það hafi verið vegna þess að ég er svo mikið þannig. Það er öruggt að ég gæti þeirra á meðan mín nýtur við eins og þar stendur.
Ef svo færi nú allt í einu að mín nyti ekki lengur við og mér hefði láðst, eða ekki tekist, að gera afkomendum mínum grein fyrir helstu dýrgripum sem þeir erfa ættu þeir þá að minnsta kosti að geta flett upp í þessu bloggi :)

þriðjudagur, 11. janúar 2011

1. Og nú byrjum við

Þetta er blogg um gamalt og gott. Nú er alveg eftir að vita hvort ég finn almennilega út úr því hvernig á að umgangast blogg með útlenskum leiðbeiningum. Sjáum til.