fimmtudagur, 16. júní 2011

31. Ljósin í bænum

Í síðustu viku átti ég erindi til Akureyrar og þar fann ég í Fjölsmiðjunni ljósin sem ég var að leita að fyrir ganginn niðri. Þar er ég núna með ljós sem ég keypti í Svíþjóð um árið þegar ég var með gráu delluna, en þá setti ég þau í nýju íbúðina mína á Akureyri. Hér passar reyndar ekki vel að hafa hangandi ljós (já já, seint að fatta það núna eftir tuttugu ár!) því að gangurinn er bæði lágur og þröngur og það er viss passi að þegar ég á leið þar um með gólfmoppuna skal ég alltaf reka skaftið í að minnsta kosti annað ljósið svo að klingir hátt. Það er dálítið leiðinlegt að auglýsa alltaf þannig klaufaskap sinn. Nú er auk þess annað ljósið bundið afar pent upp með baggabandi vegna þess að frystiskápsflykkið mitt er svo hávaxið og enn ekki komið á sinn stað. Rykið á ljósinu stafar að langstærstum hluta af því að ég er enn ekki búin að sparsla allt sem þarf þarna niðri og það tekur því ekki að moka út fyrr en að því loknu.
Þessi munu passa miklu betur og gera ekki nærri eins mikinn hávaða. Verð: 200 krónur pr. stk.
Vandinn er hins vegar sá að gangloftið er klætt baneitruðu og bönnuðu asbesti og rafvirkjasonurinn þverskallast við að bora í það svo að það er víst best að ég geri það bara sjálf. Ef til vill dugar nú að nota bara göt þau sem fyrir eru, það er ekki fullkannað.
Uppfært: Sjá þessa færslu hér

miðvikudagur, 8. júní 2011

30. Fleiri kvistir

Nýlega kom ég við í Kynlegum kvistum á Húsavík. Erindið var að gá hvort enn væru til nokkrir litlir snagar sem mig minnir endilega að ég hafi séð þar um daginn en þeir fundust ekki nú. 
Ekki skal ég segja hvort það stafaði af 
a: Misminni mínu.
b: Þeir hafi selst.
c: Húsráðendur höfðu nýlega tekið til! Ææ, tiltektir geta hæglega orðið til bölvunar.

Aldrei fór nú samt svo að ég færi tómhent heim frekar en fyrri daginn.
 Þrír mismunandi leirdiskar undir blómapotta, karfa til skreytingagerðar, útiljós, súkkulaðibaukur frá Harrods,
 bráðfín rjómakanna,
 og einn pínulítill baukur sem inniheldur loftriffilskot ásamt einni sérlega ískyggilegri pílu með rauðu stéli. Oj.
Baukafíkn mín veldur því að ég ágirnist umbúðir af ýmsum óvinum mínum svo sem eins og skotfærum og allra handa nikótíni.
Þegar þessi baukur var nú kominn í mína eigu áttaði ég mig á að ég er komin með vísi að skotabaukasafni!
Ég á nú nefnilega að minnsta kosti þrjá. Sá ferkantaði er til mín kominn frá dönskum fyrrum mági sem átti hann eftir afa sinn. Innihaldið er þarna við hliðina. Miðsonurinn fann slíkan á sænskri síðu þar sem hann verðlagðist á tíkall að mig minnir en minn er ekkert til sölu frekar en aðrir mínir baukar. Um þriðja baukinn man ég enga sögu.
Fyrir farminn úr Kvistunum greiddi ég þúsundkall þó að verðlagningin hafi verið eitthvað ögn lægri.

miðvikudagur, 1. júní 2011

29. Síðasti í saumavélum

Einhver gæti ímyndað sér að ég safnaði saumavélum. Því fer fjarri. Þetta varð bara einhvern veginn svona sko.
Síðasta saumavélin sem mér áskotnaðist var vélin hennar Siggu föðursystur. Þegar við systkinin fórum í gegn um dótið hennar var enginn sem girntist saumavélina. Ég spurðist svolítið fyrir hjá öðrum ættingjum hennar en enginn sýndi áhuga svo að ég tók hana að mér. Af og frá að farga henni eða selja fannst mér.
 Vélin er fótstigin og í borði og heitir Bobbin. Ég minnist þess ekki að hafa séð það vörumerki fyrr. Ofan í borðinu hjá vélinni var grænt einhverslags púðaver og löng teygja og fyrst Sigga gekk þannig frá fer ég ekki að hringla neitt með það. Ég get ekki ímyndað mér annað en að hægt sé að setjast við vélina og sauma nema að reimin er orðin nokkuð teygð. Ens og sést í næstsíðustu færslu nota ég húsgagnið núna þannig að ofan á þessari er handsnúna vélin hennar ömmu. Bara svona upp á plássið.
Vilji maður nú taka sig til og fara að nota gripinn þá fylgir mjög skilmerkileg leiðbeiningabók.
 Þar fáið þið meðal annars að vita allt um það hvernig skal farið að því að rykkja bryddingu, sauma lek, falda eða festa blúndu.
Svo kynnist þið líka vélbúnaðinum svona ef eitthvað kemur nú upp á.
Eini vandinn er bara sá að þetta kemur allt frá Frakklandi og ég skil ekki aukatekið orð í frönsku. Kemur sér að ég er í (blogg)tengslum við frönskuþýðanda.
Í skúffunum var svo slatti af skemmtilegu dóti, til dæmis nokkur alvöru tvinnakefli úr tré, gamaldags krókar og smellur og sitthvað fleira.