laugardagur, 17. desember 2011

54. Afi og amma.

Víkur nú sögu að afa og ömmu eiginmannsins.
Hann er yngsta barn nokkuð fullorðinna foreldra svo að hver kynslóð teygist tiltölulega langt aftur.
 Hér í þessum fína heimatilbúna ramma eru Öndólfsstaðahjónin Guðfinna Kristín Sigurðardóttir 1868-1953 og Stefán Jónsson 1860-1951. Hann ku hafa verið skondinn fýr og er víða nefndur í frásögnum. Vel gefinn og ekki mikið fyrir að læðast um að manni skilst.
 Ramminn er náttúrulega kveikjan að þessu bloggi en ég hef enga hugmynd um hver muni hafa gert hann eða hvenær, en hann á sinn stað á hillunni neðan við fjölskylduvegginn.
Hér eru þau hjón með börnum sínum nema tveim þeim yngstu sem ekki eru fædd þarna. Hvítklædda stúlkan fremst er tengdamóðir mín, Friðrika Stefánsdóttir, fædd 1908, dáin 1994.
Ég skoða þessa mynd með mikilli athygli og þá helst hálstauið. Þarna má til dæmis glöggt sjá á Sólveigu hvernig var í tísku á þessum tíma að hnýta peysufataslifsið og ekki væri nú leiðinlegt að eiga svona kraga eins og kjólklæddu stúlkurnar Ása og Guðfinna eru með. Ég öfunda Jón hins vegar alls ekki neitt af hvíta flibbanum stífa, það getur varla hafa verið þægilegt að kinka kolli með þennan búnað.

mánudagur, 12. desember 2011

53. Baukasending

Hingað barst jólapakki í gærkvöldi og í pokanum flutu með 8 baukar. Það er stundum ofurlítið blendin ánægja að taka á móti svona sendingum því að eins og ég nefni stundum á ég nú þegar nokkra bauka en alltaf er samt gaman að fá svona og því minni sem baukarnir eru því betra oftast nær. Það er bara sagt vegna plásslegra sjónarmiða. Ég myndaði þá á kistunni hennar langömmu.
 Mér er ekkert um tóbak gefið en tóbaksbaukar eru skemmtilegir, afar fjölbreyttir og það sem best er, tiltölulega litlir oftast nær.
 Hálstöflur koma sér oft vel. Held að ég hafi ekki séð svona strepsilsbauk fyrr. Á þrjá aðra.
 Hér er öndvegis hollenskur kakóbaukur. Held ég verði að finna honum stað HÉRNA í stofunni því að þar eru allir hinir kakóbaukarnir mínir nema sá sem er í notkun.
Hverskonar ævintýrabuff skyldi nú þetta hafa verið?
 Einnig barst "ný" Chupasleykjó fata, sú græna í miðjunni. Einhver virðist hafa þurft að hvíla lúin bein og sest á hana þannig að hún er ekki alveg eins hávaxin og í upphafi en ég get ekkert verið að láta það trufla mig. Systur hennar tvær taka henni fagnandi.
Síðastur kom upp úr pokanum þessi rauði hægra megin á myndinni. Ég horfði á hann um stund og fann næstum létti þegar ég fattaði að SVONA HORFI ég alltaf á úr rúminu mínu, þá var óþarfi að finna honum pláss, en nei, ekki svo gott. Þarna hafa þeir notað sömu mynd en útfært á annan hátt. Ok, þá bara skipti ég út einum jólabauk, þessir þurfa að fá að vera saman.
Knús fyrir sendinguna krakkar mínir en þið megið gjarna setja hér hvaðan þetta er komið, eða ef þið vitið einhverja sögu þeirra.

föstudagur, 9. desember 2011

52. Þröskuldur.

Það eru eiginlega áhöld um það stundum hvort bloggfærsla á betur heima á hvunndagsblogginu eða gamladagablogginu. Þannig er það til dæmis þegar ég er að tala um viðgerðir á húsinu. Húsið er nebblega gamalt dót. Byggt 1946.
 Hér er ég með svefnherbergisþröskuldinn úti í garði.
 Hér er hann niðri í geymslu.
Og nú er hann kominn á sinn stað og það finnst mér gaman. Raunar á ég eftir að skrúfa hann fastan en það er lítið mál. Lakara að gólfdúkarnir beggja megin við hann eru farnir að láta töluvert á sjá, ég get vel harkað það af mér sjónvarpsstofumegin en svefnherbergisgólffjalirnar skaaal ég pússa einhvern daginn / árið.
HÉR Má sjá meðferð þröskuldanna niðri á gangi í umfjöllun á hvunndagsblogginu.

miðvikudagur, 7. desember 2011

51. Slökkvarar

Í málningarstandi undanfarinna mánaða setti ég mér að mála ekki oftar þröskulda. Ég gat heldur ekki fengið mig til að mála slökkvara og er nú búin að hreinsa upp þrjá af fjórum gömlum.
 Þetta er ekki hrist fram úr erminni frekar en sumt annað. Fyrst er að skafa.
 Svo þarf að pússa og pússa, síðast með mjög fínum sandpappír. Þegar það er búið er slökkvarinn ekki alveg nógu fínn, svona grámattur
svo ég prófaði að lakka yfir þegar ég var að lakka þröskulda og sjá; fínt fínt.

föstudagur, 2. desember 2011

50. Meira minjasafn

Á minjasafninu á Akureyri er á neðstu hæð sýning sem gefur smá innsýn í sögu atvinnuvega á svæðinu og hýbýli fólksins. Þessa mynd tók ég á svæði lista og menningar.
 Ekki hefur verið leiðinlegt að vera klædd þessum kjól á leiksviði gamla samkomuhússins þar sem Leikfélag Akureyrar hefur verið til húsa alla tíð.
 Hér mun vera litið inn í stofu hjá einhverjum af "betri borgurum" bæjarins. Þarf helst alltaf að smella mynd af svona gripum eins og þið vitið.
Mér er ekki fullljóst samhengið í þessum skáp og man ekkert hvað á miðanum stendur, en innihaldið höfðar mjög til mín.
Uppfært: Jú, þegar ég stækkaði myndina mjá sjá að hér eru leifar vertshúsamenningar sem fundust við rannsókn í kjallara Aðalstrætis 14.