mánudagur, 21. nóvember 2011

49. Minjasafngripur

Öllum sem lesa hér má vera ljóst að ég hef áhuga á gömlu dóti og þar með safngripum ýmsum. Það er nú samt kannski ekki gefið mál að ég hafi ætlað að vera safngripur sjálf að staðaldri.
Ég var á minjasafninu á Akureyri á laugardaginn að halda upp á afmæli Laufáshópsins/Handraðans og þá fór ég niður til að leita að mynd sem ég hafði haft spurnir af.
Þarna virðist ég sem sagt koma fram sem fulltrúi allra frystihúskvenna Eyjafjarðarsvæðisins frá upphafi! Toppið það.
Þetta finnst mér skemmtilegt.

miðvikudagur, 9. nóvember 2011

48. Spariföt

Ég tók mynd af fjölskylduveggnum.
 Hér má sjá syni mína þrjá á myndum sem teknar eru af þeim þegar þeir eru komnir dálítið á annað ár. Þeir eru allir klæddir sömu sparifötunum, grænum buxum og vesti og með slaufu um háls. Þessi föt saumaði ég á elsta soninn árið 1976 úr afgöngum af efninu sem við foreldrar þeirra höfðum í brúðarklæði okkar árið áður. Við vorum sem sagt bæði í grænum jakkafötum þá.
 Nú í haust tók ég svo fötin til handargagns og endurnýjaði teygjur og tölur enda hvort tveggja orðið morkið og þreytt. Ég stytti svo buxurnar talsvert og þvoði allt saman og tók með mér til Egilsstaða núna um síðustu helgi.
 Þar straujaði og pressaði ég fötin og afhenti þau pilti sem á eins árs afmæli í dag. SJÁ HÉR.
Laglega flottur kallinn!

47. Kommóða

Ég hef víst ýjað að því áður að ekki var neitt sérstaklega mikið verið að passa upp á gamalt dót hér á bæ áður en ég kom til. Þessi kommóða var komin út í fjárhús og þar var meðal annars smíðað á henni. Ofan á henni voru allrahanda olíu og brunablettir og annað eftir því. Mamma tók hana fljótlega í yfirhalningu og svona er hún nú:
Ekki varð hjá því komist að skipta út plötunni ofan á, en annað var pússað upp og settar nýjar höldur og mér finnst húsgagnið eiga mun betur heima í betri stofu en í fjárhúsi. Hún geymir fyrir mig betri hnífapör, dúka og þessháttar og í neðstu skúffunni eru fjölskylduspil. Þetta hefur trúlega verið víða til, einu sinni sá ég til dæmis mjög svipað eintak á flóamarkaði í Danmörku. Hér er líka til skápur sem ég bjargaði úr drasli og var komin nokkuð áleiðis með uppgerð á en hann dagaði uppi í bili. Vonandi birtist hann hér á síðunni einn góðan veðurdag.