laugardagur, 29. október 2011

46. Jólabaukar

Nú er jólabaukadeildin búin að fá samastað í tilverunni. Nánar tiltekið efst uppi á vegg í svefnherberginu þannig að nú getur eiginmaðurinn haft jól fyrir augunum allt árið um kring. Hann saknar þess alltaf þegar ég tek niður skrautið sem ég hengi yfir rúminu.
Þarna nota ég kassalengjurnar sem afgangs urðu HÉRNA
og þá kemur þetta svona út.
Eins og sjá má eru það 24 baukar sem flokkast sem jóla. Sumir eru á gráu svæði þannig að kannski skipti ég þeim út ef nauðsynlegt reynist að bæta einhverjum við þarna en mig vantar í sjálfu sér ekki bauka sko. Ég tek skýrt fram að fólk á ekki að fara og kaupa "einhvern" bauk handa mér. Mér finnst hins vegar ferlega gaman að eignast gamlan flottan bauk og í ljósi fyrirferðar eru þeir oftast nær því betri sem þeir eru minni.
Ég segi líklega frá því einhvern tíma hvað þeir eru margir heima hjá mér nú um stundir, það er langt síðan ég taldi síðast svo að ég veit ekki vel hvað þeir eru mörg hundruð. Nú eru væntanlega 52 baukar í svefnherberginu til dæmis :) . Þessi bakgrunnsmynd er tekin þar inni og þrír eru á KÓKKASSANUM á veggnum.

fimmtudagur, 27. október 2011

45. Þar hafa þeir ylinn úr.

Ég flutti árið 1979 með fjölskyldunni í gamalt hús á Ísafirði. Gömlum húsum tilheyra næstum alltaf kjallarar með ýmsum kompum, svo sem eins og kolageymslum, þvottahúsum og jafnvel stundum vinnukonuherbergjum. Oftar held ég þó að þær hafi verið geymdar á háaloftum en það er líklega önnur saga. Íbúðinni sem við keyptum í þessu stóra húsi fylgdi sem sé kjallarapláss. Um þetta leyti hafði ég um annað að hugsa en rannsóknarleiðangra um kjallarakompur, á þessum vikum skrapp ég í að eignast annað barnið mitt og svona, þannig að eiginmaðurinn gat kannað málin í friði og hann fann þar þennan:
 Hann laumaðist til að pússa gripinn upp og burðaðist svo með hann upp á afmælinu mínu og gaf mér hann.
Hann hafði fundið flest sem tilheyrði nema hvað gripurinn var kollóttur.
Alla tíð síðan velti ég fyrir mér hvernig hatturinn myndi hafa verið og í apríl 2009 rak ég nefið inn hjá Fríðu frænku í Reykjavíkinni og fann þar einhvers lags lok sem mér virtist að gæti gengið þó að það sé nokkuð ljóst að það er ekki hið eina rétta. Á myndunum hér að ofan er þetta lok en áratugina fram að því var ég yfirleitt með blómapott ofan á ofninum og það var svo sem ágætt líka.
Þá sjaldan sem ég rekst á svipaða ofna er mér innanbrjósts eins og um sé að ræða kæran ættingja. Hér eru sýnishorn:
Þessi er í vistarverum vinnufólks í kjallara herragarðs í Danmörku.
Þessi á heima á Bustarfelli
og þessi líka. Hann er heldur íburðarminni en hefur væntanlega yljað jafn vel.
Get ekki stillt mig um að sýna ykkur í leiðinni þetta snilldarflotta hitunartæki sem einnig er í gamla Bustarfellsbænum. Ég hef ekki séð neitt þessu líkt fyrr. Á þessu stendur stórum stöfum prímus en það hafði ég hingað til litið svo á að væri bara stykki svipað partinum sem sést undir fyrir miðju. Þarna fjölfaldast hann sem sagt í þrjár hellur!
Að lokum er hér mynd sem ég hirti einhvern tíma af netinu en því miður man ég bara hreint ekki hvaðan.
Uppfært:
 Gleymdi: Ofninn lengst til hægri á neðstu myndinni er líklega sá ofn sem ég hef fundið sem er líkastur mínum.

þriðjudagur, 18. október 2011

44. Puntu..

Ég var að fara að svara athugasemd við síðustu færslu þegar ég sá að betra væri að koma bara með nýja.
Ég skoðaði stykkið og myndaði og rifjaði betur upp.

Efnið sem saumað er í er greinilega hveitipoki. Það finnst mér skemmtilegt. Í þessu er blettur sem tæplega fer. Það er galli. Bletturinn er utarlega þannig að hægt er að sauma hann burt. Gallinn úr sögunni.
Ef ég man það rétt að Lóa hafi hugsað þetta sem puntuhandklæði þarf væntanlega að bæta öðru efni á alla kanta. Held ég. Hef bara ekki áhuga á puntuhandklæðum þannig að verkefni er frestað.
Útsaumnum er greinilega lokið og ég man og sé að ég hef saumað blómin hægra megin en ég man ekki hversu mikið ég saumaði af parinu. 
Verðum bara að sjá til hvað framtíðin ber í skauti sér.

43. Kollur

Fyrir nokkrum árum gaf mamma mér þennan koll. Endur fyrir löngu smíðaði pabbi tvo svona kolla og fyrst þegar ég man þá þjónuðu þeir sem náttborð foreldra minna. Ég spurði mömmu nýlega hvenær þeir voru smíðaðir og hún mundi það ekki fyrir víst, giskaði þó á að þeir gætu hafa verið gerðir úr afgöngum frá kojusmíðinni árið 1957 eða svo. Sú koja var mikill dýrðarstaður í mínum unga huga og þess vegna endaði til dæmis alltaf lagið um alla krakka svona: ...lyfta mér á kreik - og koju. Ég hafði ekki nokkra hugmynd um hvar þessi kreikur var og hafði þar af leiðandi engan áhuga á að komast þangað. Öðru máli gegndi um þriggja hæða kojuna sem bræður mínir sváfu í! Það var dýrðarstaður en útilokað að komast upp í efstu hæðina af eigin rammleik. Ég spurði mömmu líka í leiðinni hvað orðið hefði um kojuna góðu og hún er að mestu leyti orðin að eldhúsgólfi og fleiru í sumarbústaðnum hennar. Einhverjir partar breyttust líka í varning sem hún er búin að selja í Kaðlín.
Sem sagt hafa kollarnir "alltaf" verið til hvað mig varðar. Þegar foreldrar mínir skildu fengu þau hvort sinn stólinn og hinn er núna hjá systur minni að ég held. Mamma saumaði ekki löngu síðar áklæði á þennan sem ekki spillir. 
 Í kollinum er hirsla og hvað er betur við hæfi en að geyma þar útsaumsdót?
Verð þó að viðurkenna að við því hefur ekki verið mikið hreyft í áratugi. Þetta sem liggur efst er svonefnt puntuhandklæði sem kona móðurbróður míns gaf mér liklega árið 1967 þegar ég var hjá þeim í sveit. Hún var eitthvað byrjuð á saumnum en ég tók svo við en ekkert man ég hvers vegna ég er ekki búin með stykkið. Kannski er það vegna þess að ég myndi tæplega nota það neitt. Kannski bara vegna leti.

mánudagur, 17. október 2011

42. Athugasemdir


Mér finnst afar sorglegt að ég skuli ekki fá að njóta athugasemda ykkar af því að fólki sem ekki er með bloggsíðu sjálft tekst ekki að setja þær inn. Hafið þið prófað svona?

Sendu inn athugasemd

(Hér er reitur til að skrifa textann inn í)

 Select profile

Nú smellir þú á select profile og þar færð þú möguleikann Name/URL og færð þetta:

Edit profile




Þarna getur þú kvittað og ég held að þú þurfir ekki einu sinni að skrifa netfang en er þó ekki viss.
Næst kemur þá líklega staðfestingarorð sem þú skrifar og þá hlýtur þetta að vera komið. Svona kvittaði ég alltaf hjá Fríðu áður en ég fór að blogga sjálf og það gekk fínt.


Látið mig endilega vita ef þetta gengur ekki 

miðvikudagur, 12. október 2011

41. Rúgbrauðskassinn


Hér er færsla úr gamla blogginu mínu. Ákvað að afrita hana frekar en að vísa á hana af því að ég neyðist til að hafa það læst til að hindra ruslathugasemdir sem mokast inn á flestar blogcentralsíður nú um stundir. Lykilorðið þar er talan og er allsekki leyndarmál.

19.12.2008 09:24:21 / tumsa

356. Rúgbrauðskassinn

Ég sá um daginn rúgbrauðskassa í Frúnni í Hamborg, keypti hann ekki en dauðsá fljótlega eftir því. Í gærkvöldi brunaði ég svo til Akureyrar að sækja danina mína, þ.e. barnið mitt og tengdabarnið, og þá byrjaði ég á að fara í Frúna með slatta af dótinu sem ekki gekk út í portinu um daginn og bjóða það þar til kaups. Það gekk eftir að hluta, ég losnaði við sumt, borgaði 2000 kall á milli og fór út alsæl með kassann góða. Fór svo til mömmu minnar og hafði út úr henni svolítið af spýtum úr gamla Holtakotabænum þar sem hún fæddist, en þær ætla ég að hafa sem hillur í kassanum sem þar með verður eitt fínasta húsgagnið á bráðum nýmáluðum stofuvegg. Myndir birtast þegar þar að kemur. 

Þetta var sem sagt í desember 2008 svo sem sjá má, en hér eru nýlegar myndir sem hæfa betur dótabloggi en þær sem ég setti um árið á hvunndagsbloggið þegar ég átti ekkert dótablogg.



Sumt af því sem í kassanum er hefur nú þegar fengið umfjöllun hér, sumt kemur kannski seinna.
Í tilefni dagsins skipti ég um bakgrunn.

Uppfært: Hehe maður er stundum svo sljór. Það var ekki fyrr en núna að ég áttaði mig á að það vantaði einn bauk í lyftiduftsbaukadeildina þegar ég myndaði hana um daginn og birti  hér í færslu númer 36.

sunnudagur, 2. október 2011

40."Nýju" gangljósin

Í  þessari færslu skrifaði ég um ljósin á ganginum niðri. Þá finnst mér rétt að ljúka þeirri sögu hér líka, ég er mjög ánægð með útkomuna, ekki síst hve lagnirnar eru mikið nettari núna.
Um lagfæringarnar niðri að öðru leiti fjalla ég á hvunndagsblogginu þó að segja megi að ekki séu skörp skil á efninu þar sem ég er að tala um lagfæringar og viðhald á húsi sem er hátt á sjötugsaldri.

39. Slæður

Skrapp með gamlan bakpoka í Kynlega kvisti um daginn og horfði þá auðvitað svolítið í kring um mig í leiðinni og viti menn; enginn baukur til í búðinni! 
Ég fór þó ekki tómhent heim, fann tvær langar þunnar slæður en þær eru afar nýtilegar til að þæfa á þær. Verða þá annað hvort treflar eða dúkar nema hvort tveggja sé.
Svo auðvitað fáeinar körfur undir handverk :).