fimmtudagur, 27. október 2011

45. Þar hafa þeir ylinn úr.

Ég flutti árið 1979 með fjölskyldunni í gamalt hús á Ísafirði. Gömlum húsum tilheyra næstum alltaf kjallarar með ýmsum kompum, svo sem eins og kolageymslum, þvottahúsum og jafnvel stundum vinnukonuherbergjum. Oftar held ég þó að þær hafi verið geymdar á háaloftum en það er líklega önnur saga. Íbúðinni sem við keyptum í þessu stóra húsi fylgdi sem sé kjallarapláss. Um þetta leyti hafði ég um annað að hugsa en rannsóknarleiðangra um kjallarakompur, á þessum vikum skrapp ég í að eignast annað barnið mitt og svona, þannig að eiginmaðurinn gat kannað málin í friði og hann fann þar þennan:
 Hann laumaðist til að pússa gripinn upp og burðaðist svo með hann upp á afmælinu mínu og gaf mér hann.
Hann hafði fundið flest sem tilheyrði nema hvað gripurinn var kollóttur.
Alla tíð síðan velti ég fyrir mér hvernig hatturinn myndi hafa verið og í apríl 2009 rak ég nefið inn hjá Fríðu frænku í Reykjavíkinni og fann þar einhvers lags lok sem mér virtist að gæti gengið þó að það sé nokkuð ljóst að það er ekki hið eina rétta. Á myndunum hér að ofan er þetta lok en áratugina fram að því var ég yfirleitt með blómapott ofan á ofninum og það var svo sem ágætt líka.
Þá sjaldan sem ég rekst á svipaða ofna er mér innanbrjósts eins og um sé að ræða kæran ættingja. Hér eru sýnishorn:
Þessi er í vistarverum vinnufólks í kjallara herragarðs í Danmörku.
Þessi á heima á Bustarfelli
og þessi líka. Hann er heldur íburðarminni en hefur væntanlega yljað jafn vel.
Get ekki stillt mig um að sýna ykkur í leiðinni þetta snilldarflotta hitunartæki sem einnig er í gamla Bustarfellsbænum. Ég hef ekki séð neitt þessu líkt fyrr. Á þessu stendur stórum stöfum prímus en það hafði ég hingað til litið svo á að væri bara stykki svipað partinum sem sést undir fyrir miðju. Þarna fjölfaldast hann sem sagt í þrjár hellur!
Að lokum er hér mynd sem ég hirti einhvern tíma af netinu en því miður man ég bara hreint ekki hvaðan.
Uppfært:
 Gleymdi: Ofninn lengst til hægri á neðstu myndinni er líklega sá ofn sem ég hef fundið sem er líkastur mínum.

4 ummæli:

  1. ohh dýrka svona ofna!

    SvaraEyða
  2. Það var ægilega gaman að leika sér að þessum ofni þegar maður var yngri :)

    Róbert Stefán

    SvaraEyða
  3. Og ertu þá vaxinn upp úr því núna barnið gott?

    SvaraEyða