miðvikudagur, 30. mars 2011

17. Þjóðlegur

Hér er einn sem mér þykir vænt um. Inga móðursystir gaf mér hann fyrir löngu síðan og hann hefur talsvert látið á sjá síðan hann kom í heiminn, til dæmis glittir í bilaða samsetningu á efstu myndinni. Þessir baukar voru líka gerðir í bláum litum veit ég, er ekki viss um að þeir hafi verið fleiri.
Myndirnar hef ég oft skoðað og nú vill svo skemmtilega til að tvær þeirra eru í bók sem ég fékk eftir pabba minn. Hún heitir Til gagns og til fegurðar og ber undirtitilinn Sjálfsmyndir í ljósmyndum og klæðnaði á Íslandi 1860-1960 og er eftir Æsu Sigurjónsdóttur. Þar stendur meðal annars á blaðsíðu 27: 
"Búningamyndir 19. aldar voru leiknar fyrirsætumyndir, gerðar fyrst og fremst til að staðfesta og markaðssetja þjóðernisímynd. Þær eiga ekki að sýna raunveruleikann heldur ákveðna draumaímynd, fyrirmynd, svipað og tískumyndir nútímans"
Þetta finnst mér verulega athyglisvert.
 
Ég kann ekki skil á myndunum á efstu myndinni nema að ég tel að hvort tveggja séu faldbúningar.
Hér eru svo Herdís Þorvaldsdóttir leikkona á skautbúningi og ónefnd með krókfald. Þekkir einhver kirkjuna á bak við hana?
Hérna er greinilega ljósmynd af konu í nútíma peysufötum og gaman væri ef einhver gæti sagt mér hver fyrirsætan er. Hin myndin er í bókinni góðu og um hana er sagt: "Konum þóttu þær vera fáklæddar í upphlut og hann varð ekki þungamiðja sjálfstæðs búnings fyrr en í lok 19. aldar. Teikning Sigurðar Guðmundssonar frá 1853" 
Þar hafið þið það! Þetta var hálfgildings nærfatnaður, náskylt korselettinu.
Síðasta myndin er af lokinu og hún er líka í bókinni. Hjá myndinni þar á blaðsíðu 26 segir:
"Upphlutsklædd kona skautar brúði íklæddri skautbúningi Sigurðar málara. Stúlka í húfubúningi fylgist með. Ljósmynd af glötuðu málverki eftir August Schött frá 1861"
Á sömu síðu stendur: "Málverkið er glatað en ljósmynd af því birtist víða og hafði mótandi áhrif á viðhorf Íslendinga til fortíðarinnar á 20. öld."

14 ummæli:

  1. Vá! Þessi er rosalega flottur!

    SvaraEyða
  2. Ég held að mamma hafi átt svona líka. Veit ekki hvort hann er ennþá til.

    SvaraEyða
  3. Þeir voru áreiðanlega víða, var hann í grænu eða bláu?

    SvaraEyða
  4. Tengdamóðir mín á einn svona, hann er í notkun.

    SvaraEyða
  5. Þessi er meiriháttar alveg. Það vantar í söguna, hvernig hann er notaður hjá þér. Svakalegt nýja lúkkið hérna, er þetta baukamynd frá þér sjálfri?

    SvaraEyða
  6. Hann er ekki til brúks, samsetningin er svo lasin. Já ég var að gera tilraunir, þetta er heldur dökkt eiginlega og mig langar ekki til að það sjáist í gegn. Þetta er minnstubaukadeildin í eldhúsinu hjá mér. Ég þarf að hugsa málið betur.

    SvaraEyða
  7. Ésús, hvað hann er fínn!

    SvaraEyða
  8. Hann var/er grænn eins og þessi

    SvaraEyða
  9. Óskaplega fallegur baukur. Ég sá svona á fornsölu fyrir nokkru og þá verðlagðist hann á 27 þúsund krónur... Gaman að eiga svona grip..
    Bestu kveðjur
    Guðrún Bjarnadóttir

    SvaraEyða
  10. Úbbs! Margur er ríkari en hann hyggur.

    SvaraEyða
  11. ég sá svona í blómabúð í Grindavík í sumar, gekk þar um húsið, sem er eldgamalt og stútfult af gömlum hlutum, og myndaði meðal annars þennann flotta bauk. Fanst hann alveg stórmerkilegur og flottur.
    kveðja Stína

    SvaraEyða
  12. Ég er svo heppinn að eiga einn vel með farinn, móðir mín átti hann og notaði stundum undir smákökur fyrir jólin.

    SvaraEyða
  13. Er þetta ekki myndin af Skáld-Rósu sem situr fyrir framan kirkjuna ?

    SvaraEyða