mánudagur, 31. janúar 2011

5. Botninn



Var að átta mig á því að allir alvöru dótabloggarar hvolfa hlutum í markaskoðun.
Hér koma myndir af botnrannsókn litlu kistunnar. Hún er með innra byrði úr timbri en klædd alveg utan með málmi. Ef til vill eitthvað blönduðum kopar því að það er svolítið spanskrænuleg útfellingin í kverkinni þarna neðan á. Hún er greinilega komin til mín frá Japan en áletrunina í miðjunni gat ég engan veginn lesið fyrr en ég hafði stækkað hana með myndavélinni. Kistan er sko bara 9 cm. löng og 4 cm há. Ég held að þarna standi PATES eða eitthvað í þá áttina. Síðasti stafurinn gæti þó allt eins verið eitthvað annað. Í hálfhringnum ofan við virðast mér að séu sólargeislar. Er það ekki líka voða japanskt? Land hinnar rísandi sólar og allt það. Mamma man ekkert hvað hún bar á hana en ég myndi halda að þetta væri bronsað.

föstudagur, 28. janúar 2011

4. Litla kistan

Snemma á sjöunda áratug síðustu aldar, eða um svipað leyti og ég fann doppuna sem er í síðustu færslu fann ég litla kistu í Brunnánni. Brunná er fallvatn sem kemur ofan úr Súlumýrum og rennur niður í gegn um Kjarnalandið, niður með samnefndu æskuheimili mínu og þaðan í Eyjafjarðará. Hún er eins og aðrar ár afar breytilega vatnsmikil, stundum hverfur hún næstum í mölina en verður stundum foráttuvatnsfall sem veður með klakaburði yfir veginn. Þetta er vafalaust merkilegasta áin í mínum heimi og vei þeim dónum sem voga sér að tala um læk í þessu sambandi. (Ótrúlega margir dónar til). Þessi á var ómissandi partur af leiksvæði okkar sem náði frá Súlum að Eyjafjarðaránni svona um það bil. Þarna stífluðum við til dæmis til að útbúa okkur sundpoll. Ég var að basla við að nota uppblásinn 10 lítra mjólkurpoka sem kút, batt hann á bakið á mér með rauðum breiðum léreftsborða sem hafði verið um mittið á græna sparikjólnum mínum en gekk illa að fá pokaskömmina til að tolla rétt.
Ef til vill hefur einhver krakkinn sem átti heima þarna á undan okkur verið með þessa kistu í fjársjóðsleik en glutrað henni með einhverjum hætti í ána. Kistan var nánast svört og lokið rétt lafði á. Ég var lengi með hana í dótinu mínu en einhvern veginn urðum við svo viðskila. Löngu síðar, eða á sama tíma og mamma tók skrautdoppuna til handargagns, pússaði hún kistuna upp, litaði hana og setti nýjar lamir og setti hana svo með í jólapakkann minn.
Eitthvað er efniviðurinn morkinn þannig að naglarnir í lömunum tolla illa, en ég ætla að prófa að bera á þá lím.
Í fjársjóðskistu hæfir náttúrulega að geyma eitthvað fínt og þarna er hálsfesti úr rafi sem ég keypti fyrir nokkrum árum af dönskum víkingum á Gáseyri. Sá galli er þó á að lásinn bilaði strax svo að ég hef lítið notað festina. Kannski ég drattist til að laga það einhvern veginn einhverntíma.

miðvikudagur, 19. janúar 2011

3. Forngripur?

Skammt norðan við bernskuheimili mitt eru gamlir sjávarbakkar sem í mínu ungdæmi voru grasi grónir að mestu en sumstaðar höfðu þó fallið úr þeim smáskriður svo að þar voru kjöraðstæður fyrir bílaleiki með tilheyrandi vegagerð og lékum við systkinin okkur oft þarna. Við áttum heiminn og gátum þar af leiðandi óhrædd skilið allt eftir þarna á milli leikja án þess að aðrir spilltu nokkru. Náttúran er þó alltaf söm við sig og einhverju sinni þegar við komum að hafði fallið skriða sem olli því að að minnsta kosti einn uppáhaldsbíll sást aldrei meir. Þarna hef ég trúlega verið ca. 5 -7 ára, ég er ekki viss um að stóru strákarnir hafi nennt þessum leikjum lengur en þeir eru þremur og fjórum árum eldri en ég. Þegar þessir bræður mínir voru farnir að vinna í skógræktinni komu þeir meðal annars að því að planta þarna í brekkurnar svo að þar er nú eflings skógur og fullkomlega útilokað að fara í bílaleik. Þarna undir brekkunni var vafalaust þjóðleið frá landnámstíma nema að ef til vill hefur verið betra að fara ofan við bakkann í bleytutíð. Oft hefur þá umferðin verið mikil því allir sem áttu leið af Austurlandinu og Eyjafirðinum til Akureyrar eða lengra þurftu að fara þarna um nema þeir færu sjóleiðina.

Einhverju sinni fann ég þarna lítinn skrautlegan hlut úr málmi og fór að sjálfsögðu með hann heim. Maður fór auðvitað heim með allar gersemar, hvort sem um var að ræða kuðung, skrautlegan stein eða dauðan fugl. (Þess má geta að ég kom upp fuglakirkjugarði í brekkunni sunnan við ána en hann er fullkomlega horfinn í skóg.) Mömmu þótti gripurinn athyglisverður og bjargaði honum frá því að lenda í glatkistunni. Hún telur talsverðar líkur á að þetta sé skrautdoppa af einhverjum reiðtygjum og hefur séð myndir af svipuðu í verkum Kristjáns Eldjárns. Ef ske kynni að ég verði nú einhvern tíma stödd í Reykjavíkinni þegar þeir meta gripi á Þjóðminjasafninu væri fróðlegt að láta kíkja á þetta.

Ég eltist, flutti að heiman og gleymdi þessu en fyrir ekki mörgum árum fékk ég þetta í jólagjöf frá mömmu:

Þá var hún búin að renna undir þetta þennan fína stand. Nú er semsagt spurningin þessi: Á ég forngrip eða ekki?

Kannski er mér næstum sama - og þó.



sunnudagur, 16. janúar 2011

2. Kistan


Mér finnst við hæfi að byrja þetta hlutablogg á fatakistu langömmu minnar. Mér veittist sá heiður í sumar að taka hana að mér. Seint ætti ég svo mikið af búshlutum að ég segði að ég hefði ekki pláss fyrir svona grip.
Dóróthea Högnadóttir langamma mín var fædd 21. október 1853 og dáin 1894. Eftir hana fékk kistuna dóttir hennar Jónasína Sveinsdóttir amma mín, 1890 - 1967. Þá móðursystir mín Dóróthea Sveina Einarsdóttir sem vegna heilsubrests hefur ekki tök á að passa hana lengur og fólkið hennar bauð mér gripinn. Vita líklega hversu skrýtilega ég er innréttuð.
Ekki er vitað hve gömul kistan er en ekki er ósennilegt að langamma hafi fengið hana ung kona, svona þegar hún fór að þurfa stað fyrir eigin föt. Kannski til dæmis á milli 1860 og 1870? Ekki gott að vita. Ekki er heldur vitað hvort einhver átti hana áður.
Þegar mamma man kistuna í gamla bænum í Holtakotum var hún vel lokuð, svo vel að einhvern tíma fannst lykillinn ekki og endaði með því að afi þurfti að skemma læsinguna til að opna. Seinna fannst svo lykillinn reyndar en ekki er nein læsing í kistunni núna. Eftir að kistan fluttist svo í nútímalegra húsnæði með því hitastigi sem fylgir fór lokið að verpast og vindast. Svolítið velti Dóra frænka því fyrir sér að láta lagfæra það en ákvað svo að gera ekkert í því. Ég ætla það ekki heldur, hún á bara að bera sín ellimörk án lýtaaðgerða. Kistan er upphaflega máluð í þessum millibrúna lit og skrautlaus. Í henni er handraði. Eins og sést hefur einhvern tíma þurft að skipta út hjörunum öðru megin.
Ég stefni að því að hafa hana við hliðina á sófasettinu skrýtna í sparistofunni og útbúa sessu ofan á hana svo að hægt sé að sitja á henni í fjölmennum boðum án þess að fá lykkjufall á sokk. Sessan verður svo bara ofan í henni hvunndags.

þriðjudagur, 11. janúar 2011

1. Og nú byrjum við

Þetta er blogg um gamalt og gott. Nú er alveg eftir að vita hvort ég finn almennilega út úr því hvernig á að umgangast blogg með útlenskum leiðbeiningum. Sjáum til.