Snemma á sjöunda áratug síðustu aldar, eða um svipað leyti og ég fann doppuna sem er í síðustu færslu fann ég litla kistu í Brunnánni. Brunná er fallvatn sem kemur ofan úr Súlumýrum og rennur niður í gegn um Kjarnalandið, niður með samnefndu æskuheimili mínu og þaðan í Eyjafjarðará. Hún er eins og aðrar ár afar breytilega vatnsmikil, stundum hverfur hún næstum í mölina en verður stundum foráttuvatnsfall sem veður með klakaburði yfir veginn. Þetta er vafalaust merkilegasta áin í mínum heimi og vei þeim dónum sem voga sér að tala um læk í þessu sambandi. (Ótrúlega margir dónar til). Þessi á var ómissandi partur af leiksvæði okkar sem náði frá Súlum að Eyjafjarðaránni svona um það bil. Þarna stífluðum við til dæmis til að útbúa okkur sundpoll. Ég var að basla við að nota uppblásinn 10 lítra mjólkurpoka sem kút, batt hann á bakið á mér með rauðum breiðum léreftsborða sem hafði verið um mittið á græna sparikjólnum mínum en gekk illa að fá pokaskömmina til að tolla rétt.
Ef til vill hefur einhver krakkinn sem átti heima þarna á undan okkur verið með þessa kistu í fjársjóðsleik en glutrað henni með einhverjum hætti í ána. Kistan var nánast svört og lokið rétt lafði á. Ég var lengi með hana í dótinu mínu en einhvern veginn urðum við svo viðskila. Löngu síðar, eða á sama tíma og mamma tók skrautdoppuna til handargagns, pússaði hún kistuna upp, litaði hana og setti nýjar lamir og setti hana svo með í jólapakkann minn.
Eitthvað er efniviðurinn morkinn þannig að naglarnir í lömunum tolla illa, en ég ætla að prófa að bera á þá lím.
Í fjársjóðskistu hæfir náttúrulega að geyma eitthvað fínt og þarna er hálsfesti úr rafi sem ég keypti fyrir nokkrum árum af dönskum víkingum á Gáseyri. Sá galli er þó á að lásinn bilaði strax svo að ég hef lítið notað festina. Kannski ég drattist til að laga það einhvern veginn einhverntíma.
Í fjársjóðskistu hæfir náttúrulega að geyma eitthvað fínt og þarna er hálsfesti úr rafi sem ég keypti fyrir nokkrum árum af dönskum víkingum á Gáseyri. Sá galli er þó á að lásinn bilaði strax svo að ég hef lítið notað festina. Kannski ég drattist til að laga það einhvern veginn einhverntíma.
Mjög fallegur gripur. BrunnÁIN hefur verið gjöful;)
SvaraEyðaAlveg var ég búin að gleyma þessum hlut. Skemmtilegt :)
SvaraEyðaEr kistan málmklædd? Hvernig er hún svo lituð, hvaða efni er notað? Ég myndi nú drífa í að laga hálsmenið, sem virðist hið fínasta skart!
SvaraEyðaSjá næstu færslu Kristín. Hálsmenið já, þú hefur rétt fyrir þér eins og stundum:)
SvaraEyða