miðvikudagur, 23. júlí 2014

84. Bylur hæst í tómri tunnu??

Nú fór ég af rælni inn á þetta blogg og fór að lesa elstu færslurnar. Það var gaman. Þá fór fjöldi athugasemda jafnvel stundum yfir tuginn! Ég hrökk við þegar ég rak augun í að fjöldi heimsókna er nákvæmlega 17.000!!
Ekki er traffíkin samt mikil nú orðið. Enda sjaldan skrifað. Þetta bítur í skottið hvað á öðru býst ég við.
Nú skulum við samt sjá færslu:
Mamma flutti síðastliðið haust úr húsinu sínu og lét það eftir syni mínum og fjölskyldu hans. Ég hef hana grunaða um að hafa þumbast við þar til einhver afkomandinn sýndi áhuga á að búa þar, en það var orðið heldur umfangsmikið fyrir aldraða manneskju. Það eru nokkur handtök að taka saman það sem safnast hefur upp í rúmlega hálfrar aldar búsetu á sama stað og af því að ég veit að þið látið það ekki fara lengra, þá er ég ekki ekki frá því að ég sæki söfnunaráráttuna til móður minnar. Nú veit ég fyrir víst að hún fussar ef hún les þetta en það gerir ekkert til.

Hún rétti mér þessa tunnu til varðveislu. Ég man vel þessa tunnu en hún skipti mig svo sem litlu máli þegar ég var krakki, hún var bara þarna. Nú hef ég þroskast :)
Mamma sagði að pabbi hefði rennt gripinn úr afgangskubb eftir að hafa smíðað þriggja hæða kojuna undir eldri bræður mína. Sú koja var öndvegis gripur sem ekki er lengur til sem slík, mamma er löngu búin að smíða úr henni eitthvert handverk og selja. Það liggur í augum uppi að efsta hæðin í þriggja hæða koju hlýtur að vera afar eftirsóknarverður staður fyrir fárra ára gamalt stúlkubarn og óhugsandi að komast svo hátt nema hægt sé að fá einhvern til að lyfta sér. Þetta allt saman varð til þess að þekkt vísa lengdist og var (og er enn) alltaf svona í mínum munni:
Allir krakkar, allir krakkar
eru í skessuleik.
Má ég ekki mamma
með í leikinn þramma?
Mig langar svo, mig langar svo
að lyfta mér á kreik
og koju.

Ef ég kynni að skrifa nótur skyldi ég gera það fyrir ykkur en síðustu tvö orðin og þau lang mikilvægustu eru sungin með löngu oooi. Hvern langar svo sem upp á þennan kreik?? Ekki mig sko, hafði enda ekki minnstu hugmynd um það hvar hann væri og fullkomlega óhugsandi að hann gæti verið skemmtilegri en efsta kojan. Einhverjum árum síðar man ég okkur Óla að tafli í miðkojunni. Okkar skákir voru að mig minnir yfirleitt frekar stuttar.
En nú hefur mig borið af leið, ég var að tala um tunnuna. Mamma segir mér að til hafi verið lok en ég held ég muni ekkert eftir því. Á hana hafa verið gerðar rákir með brennipenna til að afmarka tunnustafina en þær eru orðar máðar eins og gripurinn allur, enda trúlega gert seint á sjötta áratug síðustu aldar. Ég held þetta hafi ekki verið leikfang, heldur svona krús undir sitt lítið af hverju. Spyr mömmu ekki núna því það er komin nótt og þá á ekki að vera að ónáða fólk þó að málefnið sé mikilvægt.
Uppfært: Þetta reyndist skrök með kojuna, ég er að rugla, það var náttúrulega stóllinn hér sem tengist kojunni en ekki litla tunnan.
Tunnuna renndi pabbi 1953 eða þar um bil þegar þau bjuggu í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Þar í skólanum var smíðastofa með rennibekk. Kojukaflinn má samt vera hér þó að ekki viti ég um neina mynd af henni, því miður.

laugardagur, 22. mars 2014

83. Gluggatjöld

Fyrir nærri 2 árum bloggaði ég um gluggatjöld hér.
Þegar ég skellti mér á vinstra hnéð fyrir rúmu ári var ég á síðustu metrunum að sauma gluggatjöldin.
Undanfarið hef ég verið að gera rusk í saumaverkefnum í Tumsu og þegar farið var að sjást sæmilega í borð og hillur áttaði ég mig á að ég hafði ekkert rekist á gluggatjöldin. Það var undarlegt. Ég leitaði á öllum líklegum stöðum en allt kom fyrir ekki. Þá sest maður niður og hugsar. Ég rifjaði upp að ég var þar stödd í verkinu að ég var rétt búin að strauja upp faldinn og átti því eftir að sauma hann. Efnið er bómull og hana er vissara að þvo áður en farið er að falda því að efnið hleypur. Fjárans tuskurnar teygðust á snúrunni og þess vegna var ég að vanda mig svo við að strauja og títa faldinn. Strauborðið var í stofunni mánuðum saman eftir að ég datt, svo að þar hafa gluggatjöldin verið líka. Margar vikur liðu svo að ég fór alls ekkert niður nema til að komast á snyrtingu og bar ekkert með mér nema hægt væri að halda á því milli tveggja fingra á hækjunum. Sem sagt: Tuskurnar hlutu að vera í stofunni og þar er ekki nema um einn stað að ræða: Gamla kistan!
Gott og vel, ég labbaði að kistunni, tók upp úr henni gluggatjöldin og lauk við þau. 
Þegar ég ætlaði að fara að raða á þau hringjunum sem hafa lengi beðið þolinmóðir í einni bókahillunni kom í ljós að krókarnir voru lokaðir öðru megin þannig að ekki virtist gert ráð fyrir að þeim væri krækt í tjald eða hring. Bjánalegt. Ég á hins vegar ýmis tól og tangir þannig að ég gat fest krókana á hringina og nú eru tjöldin komin á sinn stað 
Þetta kemur út um það bil eins og ég vildi, þau eru létt og fyrirferðarlítil og ég kem áreiðanlega oftar  til með að draga frá en fyrir.
Nú er ég væntanlega laus við að horfa á lök og teppi fyrir gluggunum.

föstudagur, 21. mars 2014

82. Norska apótekið

Í sumar vann frumburðurinn í ferðaþjónustu í norsku dreifbýli. Einhversstaðar á afskektum stað fann hann þetta og varð hugsað til mömmu sinnar:
 Ekki er ég svo vel að mér í norskunni að ég hafi hugmynd um hvert innihald flöskunnar muni hafa verið. Kannski gæti ég krafsað mig fram úr því ef það væri prentað en ekki handskrifað. Svo mikið er þó víst að ekki er um að ræða svaladrykk, það segir mér glottandi hauskúpan á krosslögðu leggjunum.
 Þetta þykja mér miklir dýrgripir og ekki spillir smæðin. Ég verð svo miklu glaðari þegar ég eignast smáa gripi heldur en stóra nú orðið. Það tengist eitthvað plássinu sko.
 Flaskan að tappanum meðtöldum er tæpir 8 sentimetrar á hæð en baukurinn hér neðan við er 5,3 x 4,4 x 1,4 cm.
 Á bauknum má lesa að innihaldið er ormalyf fyrir refahvolpa. Nú eru allmörg ár síðan við hættum hér refarækt svo að ég held að ég láti bara belgina fylgja ílátinu áfram.
Sko mig bara, komnar tvær bloggfærslur í dag.

laugardagur, 4. janúar 2014

81. Sænsk jól

Í tilefni jóla set ég hér myndir sem ég tók í ferð minni til Karlskrona í sumar. Þessi fínu tré eru á Blekingesafninu en þar sem þau eru geymd á bak við gler var svolítið erfitt að ná af þeim þokkalegum myndum.
 Dýr eru áberandi í flestum trjánum, hér eru tvö hestatré, mjög mismunandi íburðarmikil.
 Hér eru fleiri hestatré og eitt með fugli og hangandi laufum.
 Kertastjakar á trjánum voru oftast nokkuð traustbyggðir.
 Skrautlegt hanatré.
Tré fátæka mannsins?
Þrír hestar neðst og hani á toppnum.