Í sumar vann frumburðurinn í ferðaþjónustu í norsku dreifbýli. Einhversstaðar á afskektum stað fann hann þetta og varð hugsað til mömmu sinnar:
Ekki er ég svo vel að mér í norskunni að ég hafi hugmynd um hvert innihald flöskunnar muni hafa verið. Kannski gæti ég krafsað mig fram úr því ef það væri prentað en ekki handskrifað. Svo mikið er þó víst að ekki er um að ræða svaladrykk, það segir mér glottandi hauskúpan á krosslögðu leggjunum.
Þetta þykja mér miklir dýrgripir og ekki spillir smæðin. Ég verð svo miklu glaðari þegar ég eignast smáa gripi heldur en stóra nú orðið. Það tengist eitthvað plássinu sko.
Flaskan að tappanum meðtöldum er tæpir 8 sentimetrar á hæð en baukurinn hér neðan við er 5,3 x 4,4 x 1,4 cm.
Á bauknum má lesa að innihaldið er ormalyf fyrir refahvolpa. Nú eru allmörg ár síðan við hættum hér refarækt svo að ég held að ég láti bara belgina fylgja ílátinu áfram.
Sko mig bara, komnar tvær bloggfærslur í dag.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli