laugardagur, 17. desember 2011

54. Afi og amma.

Víkur nú sögu að afa og ömmu eiginmannsins.
Hann er yngsta barn nokkuð fullorðinna foreldra svo að hver kynslóð teygist tiltölulega langt aftur.
 Hér í þessum fína heimatilbúna ramma eru Öndólfsstaðahjónin Guðfinna Kristín Sigurðardóttir 1868-1953 og Stefán Jónsson 1860-1951. Hann ku hafa verið skondinn fýr og er víða nefndur í frásögnum. Vel gefinn og ekki mikið fyrir að læðast um að manni skilst.
 Ramminn er náttúrulega kveikjan að þessu bloggi en ég hef enga hugmynd um hver muni hafa gert hann eða hvenær, en hann á sinn stað á hillunni neðan við fjölskylduvegginn.
Hér eru þau hjón með börnum sínum nema tveim þeim yngstu sem ekki eru fædd þarna. Hvítklædda stúlkan fremst er tengdamóðir mín, Friðrika Stefánsdóttir, fædd 1908, dáin 1994.
Ég skoða þessa mynd með mikilli athygli og þá helst hálstauið. Þarna má til dæmis glöggt sjá á Sólveigu hvernig var í tísku á þessum tíma að hnýta peysufataslifsið og ekki væri nú leiðinlegt að eiga svona kraga eins og kjólklæddu stúlkurnar Ása og Guðfinna eru með. Ég öfunda Jón hins vegar alls ekki neitt af hvíta flibbanum stífa, það getur varla hafa verið þægilegt að kinka kolli með þennan búnað.

2 ummæli:

  1. Kragarnir eru mjög fallegir og peysufataslifsið er svipað og á mynd hjá langömmu minni, sem ég hef apað eftir þegar ég nota peysufötin hennar sem ganga milli okkar systranna. Amma langa hafði slifs-slaufuhelminginn reyndar ívið stærri.

    Flottur rammi og mikið myndarfólk.

    SvaraEyða
  2. Kragarnir eru óskaplega fallegir og rammin er gersemi.

    SvaraEyða