fimmtudagur, 31. mars 2011

18. Bakgrunnar

Ég er ekki hetja þegar kemur að tæknimálum í tölvu. Varð hálffúl í gær þegar ég bjó mig undir að setja inn nýja færslu hér og sá að búið er að breyta innsetningunni. Nú, ég krafsaði mig fram úr því og fann þá í leiðinni nýja bakgrunnsmöguleika. Nú get ég sett inn mínar eigin myndir og þær margfaldast þá á skjánum. Þetta er samt ekki eins einfalt og maður gæti haldið. Ekki er vert að hafa myndirnar mjög dökkar og ekki með mjög mörgum smáatriðum. Það verður svolítið yfirþyrmandi þegar það margfaldast. Mér líkar heldur ekki að flöturinn er að hluta gegnsær og þá verður lesmálið óskýrara. Ég var að reyna að setja skýrasta letrið sem í boði var. Nú er ég búin að renna yfir myndasafnið mitt og leita að nýtilegum grunnum og tína út einar tíu myndir sem ég prófaði.
Þessa setti ég fyrst. Þetta er litlubaukadeildin á eldhúsveggnum.
Hún er heldur dökk og smágerð.
Uppfært: prófaði að lýsa myndina og skera ofan og neðan af.

Kannski prófa ég hana aftur seinna.
Þetta er sú sem er hér allt um kring núna:
Vegghleðslan í garðinum hjá mér. Hún er vissulega þjóðleg og vísar í gamla tímann.
Þessar gætu notast líka:
Blóðberg stendur alltaf fyrir sínu.
Hraunkaðlarnir eru flottir.
Kindurnar virka tæplega nógu vel.
Baukarnir uppi á svefnherbergisskápnum vísa í eitt helsta bloggefnið.
Kannski maður skipti af og til.

miðvikudagur, 30. mars 2011

17. Þjóðlegur

Hér er einn sem mér þykir vænt um. Inga móðursystir gaf mér hann fyrir löngu síðan og hann hefur talsvert látið á sjá síðan hann kom í heiminn, til dæmis glittir í bilaða samsetningu á efstu myndinni. Þessir baukar voru líka gerðir í bláum litum veit ég, er ekki viss um að þeir hafi verið fleiri.
Myndirnar hef ég oft skoðað og nú vill svo skemmtilega til að tvær þeirra eru í bók sem ég fékk eftir pabba minn. Hún heitir Til gagns og til fegurðar og ber undirtitilinn Sjálfsmyndir í ljósmyndum og klæðnaði á Íslandi 1860-1960 og er eftir Æsu Sigurjónsdóttur. Þar stendur meðal annars á blaðsíðu 27: 
"Búningamyndir 19. aldar voru leiknar fyrirsætumyndir, gerðar fyrst og fremst til að staðfesta og markaðssetja þjóðernisímynd. Þær eiga ekki að sýna raunveruleikann heldur ákveðna draumaímynd, fyrirmynd, svipað og tískumyndir nútímans"
Þetta finnst mér verulega athyglisvert.
 
Ég kann ekki skil á myndunum á efstu myndinni nema að ég tel að hvort tveggja séu faldbúningar.
Hér eru svo Herdís Þorvaldsdóttir leikkona á skautbúningi og ónefnd með krókfald. Þekkir einhver kirkjuna á bak við hana?
Hérna er greinilega ljósmynd af konu í nútíma peysufötum og gaman væri ef einhver gæti sagt mér hver fyrirsætan er. Hin myndin er í bókinni góðu og um hana er sagt: "Konum þóttu þær vera fáklæddar í upphlut og hann varð ekki þungamiðja sjálfstæðs búnings fyrr en í lok 19. aldar. Teikning Sigurðar Guðmundssonar frá 1853" 
Þar hafið þið það! Þetta var hálfgildings nærfatnaður, náskylt korselettinu.
Síðasta myndin er af lokinu og hún er líka í bókinni. Hjá myndinni þar á blaðsíðu 26 segir:
"Upphlutsklædd kona skautar brúði íklæddri skautbúningi Sigurðar málara. Stúlka í húfubúningi fylgist með. Ljósmynd af glötuðu málverki eftir August Schött frá 1861"
Á sömu síðu stendur: "Málverkið er glatað en ljósmynd af því birtist víða og hafði mótandi áhrif á viðhorf Íslendinga til fortíðarinnar á 20. öld."

sunnudagur, 27. mars 2011

16. Svoleiðis byrjaði það


Þar sem þegar eru komnir 3 baukar inn á þetta blogg er ekki seinna vænna að upplýsa hvernig baukasöfnunin byrjaði. Á seinni hluta níunda áratugarins fór ég til Svíþjóðar, nánar tiltekið til Sundsvall, til að taka þátt í móti norrænna samvinnustarfsmanna. Ég var þar með nokkra gripi á sýningu og söng með samnorrænum kór. Í þessum kór voru einn eða tveir Danir ef ég man rétt, einn Íslendingur og einir tvö hundruð Svíar. Þetta var mjög skemmtilegt allt saman og undir lok hátíðarinnar komu tveir Svíar sem ég hafði mælt mér mót við og þau tóku mig svo með sér í kynnisferð um sínar slóðir. Ég hafði tekið þau undir minn verndarvæng í vinnunni veturinn áður og sýnt þeim dálítið af mínu landi og menningu - til dæmis kenndum við hvert öðru tungumál okkar eftir getu - og nú var það borgað svikalaust. Meðal þess sem við skoðuðum var eins konar "Árbæjarsafn", það er að segja sýnishorn af þorpi þar sem í einu húsinu var komið fyrir fjöldamörgum baukum sem allir höfðu gegnt hlutverki áður fyrr. Þarna voru stórir síldarbaukar, hveitibaukar og bara baukar undan öllu sem nöfnum tjáir að nefna. Í þessu húsi hefur leynst vírussmit sem ég álpaðist til að innbyrða með einhverjum hætti og ég sé ekki líkur á að ég muni losna við það aftur.
Þetta er ekki skynsamlegt því að það þarf ekki svo óskaplega marga bauka í einn rúmmetra.
Við héldum suður á bóginn og í Smálöndin. Þaðan er pilturinn og heima hjá mömmu hans barst baukahúsið í tal og þá færði hún mér þennan bauk með piparkökum og sagði að ég gæti þá byrjað söfnunina á honum þessum. Það fannst mér afar vel til fundið.
Baukarnir eru dreifðir um heimilið því að þeir eru margir í einhverri notkun. Oft tek ég til handargagns einhvern bauk sem er þyngri en ég bjóst við og þá er þar kannski annar baukur, amerískar þvottaklemmur eða gömul kaka. Hvað ætli maður geti munað alla hluti.
Margir eru í notkun á vinnustofunum en langflestir eru í eldhúsinu, nokkrir í svefnherberginu, fáeinir eðalbaukar eiga heima í stofunni og svo framvegis. Man ekki hvað ég á mörg hundruð núna en ég set inn tölur hér eftir næstu talningu. Nú til dags sækist ég mun frekar eftir baukum sem ekki taka mikið pláss, en ennþá hef ég ekki sagt nei takk við neinum. Er þó einna minnst spennt fyrir baukum sem eru seldir tómir og nýir. Helst eiga þeir að hafa gegnt hlutverki og því eldri því betri að sjálfsögðu.

fimmtudagur, 24. mars 2011

15. Flóra

Það er svo mikið annríkið á hvunndagsblogginu að heldra bloggið verður útundan. Ekki nógu gott. Hér vil ég kynna ykkur einn góðan og gamlan:

Ekta þriggja kílóa smjörlíkisbaukur gersovel. Hann er úr búi góðrar vinkonu sem gaf mér hann enda er hún höfðingi. Stundum geymi ég í honum töluspjöld en hann er tómur eins og er. Mér finnst hann dýrindi.

sunnudagur, 13. mars 2011

14. Vettlingar

Stefnan er að blogga helst ekki mikið sjaldnar hérna en svosem vikulega.
Einhvern tíma endur fyrir löngu prjónaði Herdís langamma (sjá 8. og 13. bloggfærsluna) vettlinga sem hún gaf vinkonu sinni. Þeir eru í fimm litum úr fínt spunnu þeli.
Þegar bæði eigandinn, sem ég man ekki nafnið á vegna þess líklega að ég þekki engin deili á henni, og vettlingarnir voru orðin gömul og snjáð gaf konan Dísu föðursystur umrædda vettlinga. Kannski ekki síst vegna þess að Dísa er nafna ömmu sinnar. Dísa gaf mér svo vettlingana og þó að hún hafi ekki tekið það sérstaklega fram þá geng ég út frá því að það hafi verið vegna þess að ég er svo mikið þannig. Það er öruggt að ég gæti þeirra á meðan mín nýtur við eins og þar stendur.
Ef svo færi nú allt í einu að mín nyti ekki lengur við og mér hefði láðst, eða ekki tekist, að gera afkomendum mínum grein fyrir helstu dýrgripum sem þeir erfa ættu þeir þá að minnsta kosti að geta flett upp í þessu bloggi :)

föstudagur, 4. mars 2011

13. Toppurinn á peysufötunum

Þó mig gigtin þjái grimm
og þunnan beri eg lokkinn,
séð hef ég árin 75
sit ég enn við rokkinn.
Herdís Andrésdóttir.
Þessa vísu skrifaði ég upp eftir Gerði Kristnýju sem fór með hana í útvarpsmessu nú nýlega. Vísan er ekki í kvæðabók systranna sem ég á og ég veit ekki hvar hún finnst á prenti svo ég er ekki viss um stafsetninguna. Hef heyrt hana áður en er því miður léleg að læra vísur.
Eins og kom fram hér áður hafði ég hugsað mér að vinna sjálf húfuna úr ullinni af Norðurhlíðarkindunum. Í fyrrgreindri heimsókn okkar pabba og Siggu til Dísu um árið gáfu þær mér ekki bara búningasilfur heldur gáfu þær mér líka eitt enn og haldið ykkur nú: Ég fékk húfu sem Herdís langamma gaf tilvonandi tengdadóttur sinni sem varð amma mín. Það eru yfir hundrað ár síðan amma og afi gengu í hjónaband og ég lít á þessa húfu sem einn mesta dýrgrip minn. Vafalaust er hún unnin frá grunni af langömmu sem var rómuð fyrir góða tóvinnu. Bandið er fíngert þelband en sökum elli var hún nokkuð farin að upplitast og grána þannig að ég byrjaði á að láta lita hana svarta og greiddi fyrir það heilar 300 krónur.
Ég keypti skúf.
Það sést ekki vel á myndinni að hún er líka mjög falleg á röngunni. Til að húfan sitji betur er þjóðráð að sauma lítin kamb fremst að innanverðu og túbera svolítið hárið, þá er mesta furða hvað hún tollir með svörtu títuprjónunum, jafnvel þó hárið sé stuttklippt og eða þunnt. Mér finnst stundum erfitt að sitja á mér að hlaupa til og aðstoða þegar ég sé húfu sem er að leka af höfði einhvers sem er óvön þessum klæðnaði. Kann ekki við það ef ég þekki viðkomandi ekkert en einu sinni náði ég að koma í veg fyrir að mamma fermingarbarns færi inn í kirkjuna í öfugu pilsinu, fram það sem átti að snúa aftur. Hefði orðið ansi áberandi við altarisgönguna.