Á Akureyri er einn nytjamarkaðurinn rekinn af Fjölsmiðjunni. Þar er ungt fólk sem tekur við og eftir atvikum lagfærir sitthvað sem fólk hefur ekki brúk fyrir en hefur þó vit á að henda ekki. Þar sá ég í gær fjóra stóla sem ég gæti vel hugsað mér að eiga. Þeir voru á 2000 kall stykkið en merktir sem fráteknir. Stúlkan sem var fyrir svörum taldi ekki sennilegt að konan tæki þá en umsjónarmaðurinn vildi þó að látið yrði á það reyna svo að ég verð að hinkra, hún hringir þegar það kemur í ljós.
Ég rölti um og kom auga á nokkrar parkettfjalir sem væru svo asskoti passlegar á gangendann undir frystiskápnum þegar búið er að steypa nóg í gólfið. Keypti 7 fjalir á hundraðkall stykkið. Við hliðina á þeim voru 10 flísar sitt af hverju tagi. Mig vantar viðbót á forstofugólfið svo ég tók þær, hundraðkall stykkið. Í bauk ekki fjarri var götóttur poki með flísakrossum eða hvað það nú heitir, hann var merktur 100.- Ég rölti lengra og valdi tvær tágakörfur og tvo blómapotta, notast sumt fyrir útfararskreytingar. Hundraðkall stykkið.
2200 krónur samtals.
Ekki er nú hægt að segja að verðið sé hátt þó að hver hlutur hafi verið 100% dýrari en dótið sem ég keypti í Kynlegu kvistunum um daginn :)