laugardagur, 2. apríl 2011

19. Veski

Drasl eða ekki drasl, þar liggur efinn. Það sem þér finnst drasl er dýrgripur í mínum augum og öfugt. Stundum.
Ég var að gramsa í skáp og leita að teikningum af húsinu sem ég bý í. Ég fann teikningar af fjárhúsum og refahúsum en þar vil ég ekki búa. Svo fann ég veski og hugsaði hversvegna í ósköpunum hef ég ekki hent þessu fyrir löngu. Þetta er ekki einu sinni fallegt! Og ekki ættað frá mér. Hefur bara þvælst hér frá því áður en ég flutti hingað. Svo skoðaði ég það betur og svo sótti ég myndavél.
 Það eru á þessu merki í bak og fyrir.
 Þetta er greinilega frá tíma ávísanahefta.
 Merkjavara smerkjavara.
 Fyrirbærið hefur meir að segja kennitölu!
Mér finnst þetta samt ekkert fallegt og hef aldrei getað sett mig í spor fólks sem borgar fúlgur fjár fyrir dót sem hefur ekki neitt við sig annað en að vera merkt á tiltekinn hátt á meðan óþekkt húsmóðir saumar til dæmis flík sem er hrein snilld en er lítils virði í aurum talið vegna þess að skaparinn er "enginn sérstakur." Held að hvatirnar sem stjórna þessu séu þær sömu og valdið geta múgæsingu.
Svo er þetta veski kannski bara eftirlíking en það kemur alveg út á eitt í mínum huga.

Þessi bakgrunnur passar fyrir leðurveski. (Sem líka er úr plasti og tauborða)


5 ummæli:

  1. Gæti ekki verið meira sammála!

    SvaraEyða
  2. Æ, já. Mér finnst eiginlega allt svona fokdýrt merkjadót fremur ljótt, það er yfirleitt þakið í stöfum og eitthvað svo gelt.

    En þetta veski gætir þú vafalaust selt fyrir sæmilegan pening á Ebay.

    SvaraEyða
  3. Ég ætlaði einmitt að segja það sama og Elísabet. Ef þetta er ekta (sem ég gæti sem bet trúað að það væri) þá getur þú alveg pottþétt selt það!

    SvaraEyða
  4. Ég verð þá að setja einhvern í það mál fyrir mig. Kann ekkert á svoleiðis. Set það í nefnd. Væri vissulega forvitnilegt.

    SvaraEyða
  5. Kristín í París4. apríl 2011 kl. 09:02

    Maðurinn minn er mikill E-bay sérfræðingur, reyndar selur hann bara bækur. Það er pottþétt hægt að fá fullt af péningum fyrir þetta. Ég er annars gersamlega sammála, merkjavara er "snilldar" auglýsingatrikk og ég vorkenni fólki sem hefur fallið fyrir því trikki.

    SvaraEyða