Í síðustu viku átti ég erindi til Akureyrar og þar fann ég í Fjölsmiðjunni ljósin sem ég var að leita að fyrir ganginn niðri. Þar er ég núna með ljós sem ég keypti í Svíþjóð um árið þegar ég var með gráu delluna, en þá setti ég þau í nýju íbúðina mína á Akureyri. Hér passar reyndar ekki vel að hafa hangandi ljós (já já, seint að fatta það núna eftir tuttugu ár!) því að gangurinn er bæði lágur og þröngur og það er viss passi að þegar ég á leið þar um með gólfmoppuna skal ég alltaf reka skaftið í að minnsta kosti annað ljósið svo að klingir hátt. Það er dálítið leiðinlegt að auglýsa alltaf þannig klaufaskap sinn. Nú er auk þess annað ljósið bundið afar pent upp með baggabandi vegna þess að frystiskápsflykkið mitt er svo hávaxið og enn ekki komið á sinn stað. Rykið á ljósinu stafar að langstærstum hluta af því að ég er enn ekki búin að sparsla allt sem þarf þarna niðri og það tekur því ekki að moka út fyrr en að því loknu.
Þessi munu passa miklu betur og gera ekki nærri eins mikinn hávaða. Verð: 200 krónur pr. stk.
Vandinn er hins vegar sá að gangloftið er klætt baneitruðu og bönnuðu asbesti og rafvirkjasonurinn þverskallast við að bora í það svo að það er víst best að ég geri það bara sjálf. Ef til vill dugar nú að nota bara göt þau sem fyrir eru, það er ekki fullkannað.
Uppfært: Sjá þessa færslu hér
Uppfært: Sjá þessa færslu hér