sunnudagur, 8. desember 2013

80. Kynlegu kvistirnir í samkrulli

 Ég hef getið hér um dótabúðina Kynlega kvisti á Húsavík, nú er komin á sama stað dálítil Rauðakrossbúð og í haust fékk ég í henni svartan kjól sem ég ætla að stytta og laga svolítið og nota svo með litskrúðugum leggings og fylgidóti.  Hann kostaði 1000kall.
Ramminn, bókin, skálin, karfan og spilið í bauknum eru úr Kvistunum og kostuðu eitthverja hundraðkalla.

sunnudagur, 27. október 2013

79. Haugur

Í sumar fór ég á strandmenningarhátíð í Karlskrona í Svíþjóð ásamt nokkrum félögum mínum í Þjóðháttafélaginu Handraðanum. Við fórum til þess að vera "gamladagafólk" á sýningu og svo til að sjá og læra allskonar í leiðinni. Þetta var góð ferð og margt að sjá, en líklega er það sem stendur upp úr og ég mun lengst muna, þetta hér:
 Þetta er verslun
 og ég hef ekki á minni ævi séð neitt þessu líkt nokkursstaðar.
 Þarna er hrúgað saman - í orðins fyllstu merkingu - gífurlegu magni af ótrúlegustu hlutum í ekki sérlega stóru plássi. Verslunareigandinn er maður á aldur við mig sem trúlega vinnur einnig við eitthvað annað, að minnsta kosti er aðeins opið þarna undir kvöld og eitthvað um helgar. Öllum er boðið kaffi og sjá mátti bollana inn um alla búð með misgömlum dreggjum í. Mikið var af öndvegis gripum en nánast útilokað að nálgast drjúgan hluta þeirra. Mælikannan og trektin hér neðan við voru til dæmis úti í glugga og ég fór með honum út fyrir til að sýna honum hvaða hluti ég var að tala um, svo fórum við aftur inn og hann miðaði út stefnuna og færði síðan til kassa og dót og klofaðist yfir um að þessum tilteknu hlutum. Í slóðinni sem hann fór mátti sjá brotna leirmuni, bréfarusl og sitthvað fleira. Í einu horni búðarinnar mátti sjá inn um opnar dyr að smá kompu sem virtist þakin hillum með bókum og vynilplötum en þangað var fullkomlega óhugsandi að komast öðrum en fuglinum fljúgandi, því að framan við umræddar dyr var ekki minna en tveggja metra breitt fjall, tæplega mannhæðarhátt.
Verðlagið var okkar íslensku krónu svo sem ekkert sérlega hagstætt en þarna keypti ég þó í fyrstu ferðinni nokkra muni sem mig "bráðvantaði". Emaleraðan gulan kopp, má til að kaupa slíkan í hverju landi. Hnífaparaskúffu sem er góð undir tölur og þessháttar á mörkuðum, 2 ramma á fjölskylduvegginn, lítin bolla og svo skerm. Ég hikaði mjög við þann síðasttalda, einu sinni brotnaði skermur af skrifborðslampa hér heima en ég hafði ekki málin á opinu en ákvað samt að slá til þar sem ég hafði víða leitað árangurslaust. Mamma keypti pottinn og rjómakönnuna.
Þessa emaleruðu gripi fékk ég í annarri ferð, en í þarna í Blekinge mun vera aðal framleiðslusvæði slíkra muna og sáum við talsvert af þeim í fornsölum en ekki voru þeir neitt sérlega ódýrir.
Skermurinn smellpassaði á lampann :)
Þetta tvennt var svo í annarri búð og miklu snyrtilegri. Ég get ekki sagt að mig hafi beinlínis bráðvantað þetta en mér fannst tæplega hægt að sleppa því alveg að kaupa gamlan bauk. Þeir sem mig langaði mest í kostuðu tugþúsundir íslenskra króna svo ég lét mér bara duga einn nettan en getur einhver sagt mér undan hverju þessi er? Ég var að giska á tóbak en það vottar ekki fyrir lykt til leiðbeiningar. Þarna fékk ég líka stórt tvinnakefli en það er farið í saumadótið út í Tumsu og ég nennti ekki að sækja það til myndatöku.

miðvikudagur, 9. október 2013

78. Egilsstöðum

Þessi er á safninu á Egilsstöðum. Hann er með hitunarhellu ofan á í hólfi sem hefur verið hægt að loka fyrir, en hurðin er væntanlega glötuð. Góð nýting.


Mig klæjar oft í fingurna á söfnunum þegar ég sé uppsetninguna á þessum ofnum. Þeir eru iðulega á skjön ofan á fótstykkinu. Væri lítið mál að laga.

þriðjudagur, 23. júlí 2013

77. Á Reykjum

Ég fór á ættarmót að Reykjum í Hrútafirði um síðustu mánaðamót. Þar er safn sem er vel þess virði að skoða. Ég tók ekki margar myndir en eins og hér hefur komið fram tek ég helst alltaf upp myndavélina ef ég mæti ofni af þessu tagi einhversstaðar á förnum vegi.
Hann er frekar í minni kantinum þessi en bara sætur og þessi öndvegis hattur á honum.

sunnudagur, 17. febrúar 2013

76. Meira af stjaka

Ég fann myndina sem mig minnti að ég hefði tekið af stjaka og kerti úr síðustu færslu:
Þarna var ég aðeins búin að hagræða með því að hafa slökkt um tíma í miðjunni og laga kveik á öðrum arminum.

fimmtudagur, 7. febrúar 2013

74. Stjakinn

Fyrir nokkrum árum fékk ég þetta fína handgerða kóngakerti hjá henni Höddu en hef ekki getað notað það vegna þess að ég átti ekki hæfilega víðan stjaka. Síðast þegar ég fór í Kynlega kvisti fann ég loksins einn góðan og hann kostaði heilar 200 krónur.
 Tók þar þessa ramma líka, þar sem ég er með rammafíkn og var ekkert að gera mér rellu yfir að svolítið er kvarnað úr brún á öðrum þeirra. Það er reyndar nokkuð algengt á svona römmum. Ég er búin að eignast þá nokkra á flóamörkuðum. Svona rammafíkn fylgja stundum svona útsaumsmyndir af ýmsu tagi sem ég hef engan sérstakan áhuga á en nú hef ég fengið afar góða hugmynd um hvað gera megi við allskonar gamlan útsaum og vefnað sem fólk hefur verið að koma á mig svona bara af því að ég get ekki hent neinu. Ég ætla samt ekki að gefa neitt upp um það núna og miðað við núverandi heilsu er ekki líklegt að ég geri neitt í þessu þennan veturinn en við sjáum til. Þetta étur ekki mat eins og stundum er sagt.
Ég gleymdi svo eiginlega að mynda kertið í stjakanum almennilega en hér er ein úr jólaboðinu.
 Það þýðir bara ekkert að reyna að snúa myndinni til að sjá þetta betur, ég er búin að prófa.