miðvikudagur, 18. maí 2011

27. Saumum áfram

Þegar ég hóf búskap þurfti auðvitað að gera sér grein fyrir því hvað þyrfti að vera til á hverju heimili. Það er klassískt að tala um rúm, borð og stól.  Ætli fyrsta rúmið hafi ekki verið gamli dívaninn frá mömmu með holunni í miðjunni. Hann hefur trúlega verið ein og hálf breidd. Önnur húsgögn voru svipaður samtíningur. Rafmagnstæki ýmiskonar komu til tals síðar, en þar var efst á blaði að mér þótti ekki annað koma til mála en að saumavél hlyti að þurfa að vera til á hverju heimili. Ég bjó í þó nokkur ár án þess að eiga ísskáp, frysti, sjónvarp eða sjálfvirka þvottavél. Snemma í ferlinum vorum við til heimilis hjá afa í Biskupstungunum og þar var gamla saumavélin hennar ömmu sem ég fékk að nota. Þegar ég flutti frá afa spurði ég hvort ég mætti hafa vélina að láni þangað til ég gæti keypt mér nýja og afi brosti og taldi best að ég ætti hana bara, ekki notaði hann hana. Þetta var betra en ég hefði þorað að vona. Hérna er hún blessunin:
 Kassinn fór illa í flutningagámi þegar ég flutti frá Ísafirði um árið.
Með þessari saumavél vann ég margt og mikið þangað til ég fékk mér rafmagnsvél og einnig eftir það, því að hún er sterkari en nýjar vélar þannig að ég saumaði leðurfatnað og allskonar þykk efni í henni. Gallinn var bara sá að hún sikksakkar ekki þannig að þegar ég þurfti slíkt var annað hvort að beygja sitt á hvað alla brúnina eða rölta með efnið til ættingja á Ísafirði og bregða því í sikksakk þar :)
Lengi eftir að ég fór að nota rafmagnsvélina fór hægri hendin sjálfkrafa á loft í áttina að sveifinni þegar átti að leggja af stað. Stundum þegar ég þurfti á báðum mínum höndum að halda við að stýra efninu undir nálina var gott að eiga litlu strákana mína að til snúa sveifinni.
Þessi vél lék í Fiðlaranum á þakinu á Breiðumýri um árið og stóð sig vel í því eins og öðru.
Ekki verður séð að getu hennar hafi í nokkru hrakað frá upphafi.

4 ummæli:

  1. yndisfagrar saumavélar. Ekki er verra að geta notað dýrgripina.
    Hver veit hvort ég einn daginn undir öðru nafni mun halda áfram að blogga. Og ég skal nok senda þér myndir af stólunum góðu þegar þeir verða tilbúnir ;0)

    bestu kveðjur, ég mun áfram fylgjast með þínu bloggi

    Dagný

    SvaraEyða
  2. jahá, það gæti verið að þú eigir þá lykil sem passar að kassanum utan um mína vél, hún er búin að vera harðlæst þar inni of lengi og ég finn engan lykil sem passar

    SvaraEyða
  3. Ég er hrædd um að ég hafi aldrei haft lykil að kassanum, mörg ár var ég með heftiplástur fyrir læsingunni svo að hún ekki lokaðist og með belti utan um kassann í staðinn, en mamma setti seinna spennu í staðinn fyrir læsinguna. Ég myndi í þínum sporum fara með hana til Óla, mér þykir líklegt að hann hafa gaman af að spreyta sig við svona verkefni.

    SvaraEyða
  4. Þetta eru algerir dýrgripir sem þú átt!

    SvaraEyða