miðvikudagur, 1. júní 2011

29. Síðasti í saumavélum

Einhver gæti ímyndað sér að ég safnaði saumavélum. Því fer fjarri. Þetta varð bara einhvern veginn svona sko.
Síðasta saumavélin sem mér áskotnaðist var vélin hennar Siggu föðursystur. Þegar við systkinin fórum í gegn um dótið hennar var enginn sem girntist saumavélina. Ég spurðist svolítið fyrir hjá öðrum ættingjum hennar en enginn sýndi áhuga svo að ég tók hana að mér. Af og frá að farga henni eða selja fannst mér.
 Vélin er fótstigin og í borði og heitir Bobbin. Ég minnist þess ekki að hafa séð það vörumerki fyrr. Ofan í borðinu hjá vélinni var grænt einhverslags púðaver og löng teygja og fyrst Sigga gekk þannig frá fer ég ekki að hringla neitt með það. Ég get ekki ímyndað mér annað en að hægt sé að setjast við vélina og sauma nema að reimin er orðin nokkuð teygð. Ens og sést í næstsíðustu færslu nota ég húsgagnið núna þannig að ofan á þessari er handsnúna vélin hennar ömmu. Bara svona upp á plássið.
Vilji maður nú taka sig til og fara að nota gripinn þá fylgir mjög skilmerkileg leiðbeiningabók.
 Þar fáið þið meðal annars að vita allt um það hvernig skal farið að því að rykkja bryddingu, sauma lek, falda eða festa blúndu.
Svo kynnist þið líka vélbúnaðinum svona ef eitthvað kemur nú upp á.
Eini vandinn er bara sá að þetta kemur allt frá Frakklandi og ég skil ekki aukatekið orð í frönsku. Kemur sér að ég er í (blogg)tengslum við frönskuþýðanda.
Í skúffunum var svo slatti af skemmtilegu dóti, til dæmis nokkur alvöru tvinnakefli úr tré, gamaldags krókar og smellur og sitthvað fleira.

8 ummæli:

  1. Kristín í París1. júní 2011 kl. 20:54

    Svara spurningum þínum með glöðu geði! :) Þessi er rosalega flott, þarf að tékka á okkar ættarvél í sumar á Íslandi, hvaða merki er á henni, mig minnir samt að það sé Singer.

    SvaraEyða
  2. Gæti trúað að singer sé langalgengasta merkið á gömlum vélum hér um slóðir, en ekki ósennilegt að þú rækist á þetta merki Bobbin í gamladaga búðum í Frakklandi. Annars er þessi bæklingur nokkuð athyglisverður að því leyti að ég get alls ekki með nokkru móti séð að minnst sé á smáatriði eins og framleiðsluland, mér virðist eingöngu fjallað um vélina og hvað hún getur í löngu máli og með mörgum glöggum skýringarmyndum.

    SvaraEyða
  3. Falleg vél og ekki slæmt að eiga bæklinginn líka, þetta er mikið raritet:) En hvernig er það, ætlarðu að hafa hitt bloggið þitt læst?

    SvaraEyða
  4. Ég hef ekki nokkurn minnsta áhuga á að eiga læst blogg, þetta er skammtíma neyðarráðstöfun. Lykilorðið er bæði í tenglinum þangað hérna hægra megin og líka efst á síðunni.

    SvaraEyða
  5. Jæja, fjúkket. Mér finnst svo gaman að lesa um það sem þú brasar í sveitinni:)

    SvaraEyða
  6. Mikið er þetta glæsilegur gripur.

    SvaraEyða
  7. Þetta er orðin gömul færsla en ég er að vona að fyrirspurn mín beri árangur. Veit einhver hvar hægt er að fá nýja reim eða útbúa nýja reim úr einhverju sem virkar á gamlar fótstignar saumavélar. Ég er sko að safna.

    SvaraEyða
    Svör
    1. seint svar: ég hef keypt svokallað pakkningaefni þegar mig hefur vantað snúrur á gömul tóvinnuáhöld. Það eru sívalar lengjur, hæfilega stamar og ég held þær fáist í ýmsum sverleikum. Skáskera endana og líma saman með sterku lími.

      Eyða