þriðjudagur, 18. október 2011

43. Kollur

Fyrir nokkrum árum gaf mamma mér þennan koll. Endur fyrir löngu smíðaði pabbi tvo svona kolla og fyrst þegar ég man þá þjónuðu þeir sem náttborð foreldra minna. Ég spurði mömmu nýlega hvenær þeir voru smíðaðir og hún mundi það ekki fyrir víst, giskaði þó á að þeir gætu hafa verið gerðir úr afgöngum frá kojusmíðinni árið 1957 eða svo. Sú koja var mikill dýrðarstaður í mínum unga huga og þess vegna endaði til dæmis alltaf lagið um alla krakka svona: ...lyfta mér á kreik - og koju. Ég hafði ekki nokkra hugmynd um hvar þessi kreikur var og hafði þar af leiðandi engan áhuga á að komast þangað. Öðru máli gegndi um þriggja hæða kojuna sem bræður mínir sváfu í! Það var dýrðarstaður en útilokað að komast upp í efstu hæðina af eigin rammleik. Ég spurði mömmu líka í leiðinni hvað orðið hefði um kojuna góðu og hún er að mestu leyti orðin að eldhúsgólfi og fleiru í sumarbústaðnum hennar. Einhverjir partar breyttust líka í varning sem hún er búin að selja í Kaðlín.
Sem sagt hafa kollarnir "alltaf" verið til hvað mig varðar. Þegar foreldrar mínir skildu fengu þau hvort sinn stólinn og hinn er núna hjá systur minni að ég held. Mamma saumaði ekki löngu síðar áklæði á þennan sem ekki spillir. 
 Í kollinum er hirsla og hvað er betur við hæfi en að geyma þar útsaumsdót?
Verð þó að viðurkenna að við því hefur ekki verið mikið hreyft í áratugi. Þetta sem liggur efst er svonefnt puntuhandklæði sem kona móðurbróður míns gaf mér liklega árið 1967 þegar ég var hjá þeim í sveit. Hún var eitthvað byrjuð á saumnum en ég tók svo við en ekkert man ég hvers vegna ég er ekki búin með stykkið. Kannski er það vegna þess að ég myndi tæplega nota það neitt. Kannski bara vegna leti.

3 ummæli:

  1. Bráðsnjall kollur. Þú slærð mér við í útsaumsaumsverkfallinu - ég á óklárað útsaumsverk frá 1984 en þá þurfti ég að liggja nokkra mánuði ólétt á spítala. Dóttir mín kom í heiminn áður en ég kláraði stykkið og síðan hefur það legið óhreyft.

    SvaraEyða
  2. Já, hinn kollurinn er hjá mér. Það er í fína lagi mín vegna að leyfa þeim að vera á sama stað. Mér þótti þessir kollar mjög spennandi þegar ég var lítil. Og það er geymt handavinnudót í honum, aðallega svona dót sem maður þarf að setja einhversstaðar þangað til maður nennir að setja það nákvæmlega á sinn stað.

    SvaraEyða
  3. Sussuneinei, ég þarf ekki nema einn sko enda ekkert víst að þeir muni eftir hvor öðrum, þeir hafa núna verið miklu lengur sundur en saman!

    SvaraEyða