laugardagur, 22. mars 2014

83. Gluggatjöld

Fyrir nærri 2 árum bloggaði ég um gluggatjöld hér.
Þegar ég skellti mér á vinstra hnéð fyrir rúmu ári var ég á síðustu metrunum að sauma gluggatjöldin.
Undanfarið hef ég verið að gera rusk í saumaverkefnum í Tumsu og þegar farið var að sjást sæmilega í borð og hillur áttaði ég mig á að ég hafði ekkert rekist á gluggatjöldin. Það var undarlegt. Ég leitaði á öllum líklegum stöðum en allt kom fyrir ekki. Þá sest maður niður og hugsar. Ég rifjaði upp að ég var þar stödd í verkinu að ég var rétt búin að strauja upp faldinn og átti því eftir að sauma hann. Efnið er bómull og hana er vissara að þvo áður en farið er að falda því að efnið hleypur. Fjárans tuskurnar teygðust á snúrunni og þess vegna var ég að vanda mig svo við að strauja og títa faldinn. Strauborðið var í stofunni mánuðum saman eftir að ég datt, svo að þar hafa gluggatjöldin verið líka. Margar vikur liðu svo að ég fór alls ekkert niður nema til að komast á snyrtingu og bar ekkert með mér nema hægt væri að halda á því milli tveggja fingra á hækjunum. Sem sagt: Tuskurnar hlutu að vera í stofunni og þar er ekki nema um einn stað að ræða: Gamla kistan!
Gott og vel, ég labbaði að kistunni, tók upp úr henni gluggatjöldin og lauk við þau. 
Þegar ég ætlaði að fara að raða á þau hringjunum sem hafa lengi beðið þolinmóðir í einni bókahillunni kom í ljós að krókarnir voru lokaðir öðru megin þannig að ekki virtist gert ráð fyrir að þeim væri krækt í tjald eða hring. Bjánalegt. Ég á hins vegar ýmis tól og tangir þannig að ég gat fest krókana á hringina og nú eru tjöldin komin á sinn stað 
Þetta kemur út um það bil eins og ég vildi, þau eru létt og fyrirferðarlítil og ég kem áreiðanlega oftar  til með að draga frá en fyrir.
Nú er ég væntanlega laus við að horfa á lök og teppi fyrir gluggunum.

2 ummæli:

  1. Mér sýnist þú vera með dregið fyrir þarna hinumeginn við gluggann...

    SvaraEyða
    Svör
    1. Jú reyndar og þau tjöld eru mun flottari, verst að það er ekki víst að þau birtist eftir mínum hentugleikum og tæplega í sólskini.

      Eyða