sunnudagur, 27. mars 2011

16. Svoleiðis byrjaði það


Þar sem þegar eru komnir 3 baukar inn á þetta blogg er ekki seinna vænna að upplýsa hvernig baukasöfnunin byrjaði. Á seinni hluta níunda áratugarins fór ég til Svíþjóðar, nánar tiltekið til Sundsvall, til að taka þátt í móti norrænna samvinnustarfsmanna. Ég var þar með nokkra gripi á sýningu og söng með samnorrænum kór. Í þessum kór voru einn eða tveir Danir ef ég man rétt, einn Íslendingur og einir tvö hundruð Svíar. Þetta var mjög skemmtilegt allt saman og undir lok hátíðarinnar komu tveir Svíar sem ég hafði mælt mér mót við og þau tóku mig svo með sér í kynnisferð um sínar slóðir. Ég hafði tekið þau undir minn verndarvæng í vinnunni veturinn áður og sýnt þeim dálítið af mínu landi og menningu - til dæmis kenndum við hvert öðru tungumál okkar eftir getu - og nú var það borgað svikalaust. Meðal þess sem við skoðuðum var eins konar "Árbæjarsafn", það er að segja sýnishorn af þorpi þar sem í einu húsinu var komið fyrir fjöldamörgum baukum sem allir höfðu gegnt hlutverki áður fyrr. Þarna voru stórir síldarbaukar, hveitibaukar og bara baukar undan öllu sem nöfnum tjáir að nefna. Í þessu húsi hefur leynst vírussmit sem ég álpaðist til að innbyrða með einhverjum hætti og ég sé ekki líkur á að ég muni losna við það aftur.
Þetta er ekki skynsamlegt því að það þarf ekki svo óskaplega marga bauka í einn rúmmetra.
Við héldum suður á bóginn og í Smálöndin. Þaðan er pilturinn og heima hjá mömmu hans barst baukahúsið í tal og þá færði hún mér þennan bauk með piparkökum og sagði að ég gæti þá byrjað söfnunina á honum þessum. Það fannst mér afar vel til fundið.
Baukarnir eru dreifðir um heimilið því að þeir eru margir í einhverri notkun. Oft tek ég til handargagns einhvern bauk sem er þyngri en ég bjóst við og þá er þar kannski annar baukur, amerískar þvottaklemmur eða gömul kaka. Hvað ætli maður geti munað alla hluti.
Margir eru í notkun á vinnustofunum en langflestir eru í eldhúsinu, nokkrir í svefnherberginu, fáeinir eðalbaukar eiga heima í stofunni og svo framvegis. Man ekki hvað ég á mörg hundruð núna en ég set inn tölur hér eftir næstu talningu. Nú til dags sækist ég mun frekar eftir baukum sem ekki taka mikið pláss, en ennþá hef ég ekki sagt nei takk við neinum. Er þó einna minnst spennt fyrir baukum sem eru seldir tómir og nýir. Helst eiga þeir að hafa gegnt hlutverki og því eldri því betri að sjálfsögðu.

7 ummæli:

  1. Baukar eru skemmtilegir, margt hægt að bauka með þá.

    SvaraEyða
  2. Maðurinn minn fullyrðir að hann fái stundum á baukinn. Hann er samt bara að plata.

    SvaraEyða
  3. Drekkið þið ekki líka kók úr bauk þarna fyrir norðan?

    SvaraEyða
  4. Aldrei ég,ég er afar léleg við gosdrykkina, en þetta ku vera í máli eldri Þingeyinga. Þó ekki mjög áberandi.

    SvaraEyða
  5. Ég er með svona baukavírus, en held honum allglæsilega niðri samt, einmitt vegna rúmmetrastaðreyndarinnar sem ekki verður horft framhjá.

    SvaraEyða
  6. ég væri til í að gera eins og Lína Langsokkur, hlaupa um með ryðgaðan bauk á hausnum og detta um gaddavírsgirðingu

    SvaraEyða
  7. Hún hefur þá fengið laglega á baukinn. Ég er ekki spennt fyrir að prófa þetta með gaddavírinn. Hann höfðar mun síður til mín en baukar.

    SvaraEyða