föstudagur, 29. apríl 2011

24. Fjölsmiðjan

Á Akureyri er einn nytjamarkaðurinn rekinn af Fjölsmiðjunni. Þar er ungt fólk sem tekur við og eftir atvikum lagfærir sitthvað sem fólk hefur ekki brúk fyrir en hefur þó vit á að henda ekki. Þar sá ég í gær fjóra stóla sem ég gæti vel hugsað mér að eiga. Þeir voru á 2000 kall stykkið en merktir sem fráteknir. Stúlkan sem var fyrir svörum taldi ekki sennilegt að konan tæki þá en umsjónarmaðurinn vildi þó að látið yrði á það reyna svo að ég verð að hinkra, hún hringir þegar það kemur í ljós.
Ég rölti um og kom auga á nokkrar parkettfjalir sem væru svo asskoti passlegar á gangendann undir frystiskápnum þegar búið er að steypa nóg í gólfið. Keypti 7 fjalir á hundraðkall stykkið. Við hliðina á þeim voru 10 flísar sitt af hverju tagi. Mig vantar viðbót á forstofugólfið svo ég tók þær, hundraðkall stykkið. Í bauk ekki fjarri var götóttur poki með flísakrossum eða hvað það nú heitir, hann var merktur 100.- Ég rölti lengra og valdi tvær tágakörfur og tvo blómapotta, notast sumt fyrir útfararskreytingar. Hundraðkall stykkið.
2200 krónur samtals.
Ekki er nú hægt að segja að verðið sé hátt þó að hver hlutur hafi verið 100% dýrari en dótið sem ég keypti í Kynlegu kvistunum um daginn :)

miðvikudagur, 27. apríl 2011

23. Kynlegir kvistir

  Á Húsavík er verslun sem heitir Kynlegir Kvistir. Það er líklega óhætt að segja að hún sé náskyld Góða Hirðinum. Þar er gaman að koma. Ég leit þar inn í gær.
Þessi karfa verður ágæt undir kjálkana í Kaðlín.
Ég greiddi fyrir hana 50 krónur.
 Hér er einn úr hollustudeildinni. Einhverntíma endur fyrir löngu hefur hann vafalaust verið fullur af píputóbaki.
Hann kostaði 50 krónur.
 Þessi er reglulega sætur, enda undan sætindum.
Verð: 50 krónur.
 Til hvers myndi þetta púður hafa verið ætlað?
50 krónur takk.
 Að lokum er það svo breska sveitarómantíkin; markaður í sveitaþorpi,
 krikketleikur árið 1825, það er nokkuð fyrir mitt minni
 og að lokum Morris dansflokkur. Hvað í veröldinni sem það nú er.
Ábyggilega allir japlandi á olde english toffees.
Vill einhver giska á verðið? Jú, heilar 50 krónur.

þriðjudagur, 19. apríl 2011

22. Kókkassi

 Ég er hrifin af kössum. Mest hrifin af gömlum trékössum. Þá skal festa upp á vegg. Hér er gamall kassi undan kóki í gleri og hver flaska átti sér sitt hólf. Kassinn er uppi á svefnherbergisvegg. Ég er aftur á móti ekkert hrifin af kóki.
Rauða málningin utan á er að verða minningin ein.

laugardagur, 9. apríl 2011

21. Krullujárn

Þetta er annar gripur sem hér hefur átt heima frá því í gamla daga.
 Krullujárn, sem eins og pressujárnið varð að sækja hitann til eldavélarinnar.
Ég sá aldrei svona verkfæri í notkun en mér er það minnisstætt að þegar ég kom einhverju sinni til hennar Stínu gömlu, sjá færslu númer 7 um rauða baukinn minn, þá stóð hún við eldavélina og krullaði hárið með sívölum járnbút, ég held að það hafi ekki verið rör. Hún hafði klút utan um endann sem hún hélt á og ég dáðist mest að því með sjálfri mér að hún skyldi geta þetta án þess að brenna sig. Þetta var augljóslega ekki í fyrsta sinn. Æfingin skapar jú meistarann.

miðvikudagur, 6. apríl 2011

20. Pressujárn

Ég hef oft furðað mig á því að ekki skuli vera til hér á bæ nema örfáir hlutir sem flokkast gætu sem gamalt dót. Það er merkilegt fyrir þær sakir að héðan hafa ekki orðið stórfelldir búferlaflutningar í meira en heila öld en afi og amma Agnars fluttu hingað árið 1901. Hér kvað hinsvegar hafa átt heima á undan mér hendari. Eitthvað slapp þó og hér er pressujárn.
Þetta er gegnheill hlunkur og þar af leiðandi ekki léttara en það sýnist vera. Þegar þetta var notað var það látið standa á eldavélinni til að hita járnið. Straujárn voru léttari, oft hol að innan og þar í stungið heitum kolamolum eða glóandi sprekum.
Eðli málsins samkvæmt var gripurinn haugryðgaður þegar ég komst í tæri við hann og ég lakkaði hann svartan. Í og með til að hægt væri að hafa hann á dúk án þess að ryð smitaðist.
Sem bakgrunn undir svarta hlunkinn prófa ég að hafa litfagurt blóðberg sem var til heimilis í Naustavík.

laugardagur, 2. apríl 2011

19. Veski

Drasl eða ekki drasl, þar liggur efinn. Það sem þér finnst drasl er dýrgripur í mínum augum og öfugt. Stundum.
Ég var að gramsa í skáp og leita að teikningum af húsinu sem ég bý í. Ég fann teikningar af fjárhúsum og refahúsum en þar vil ég ekki búa. Svo fann ég veski og hugsaði hversvegna í ósköpunum hef ég ekki hent þessu fyrir löngu. Þetta er ekki einu sinni fallegt! Og ekki ættað frá mér. Hefur bara þvælst hér frá því áður en ég flutti hingað. Svo skoðaði ég það betur og svo sótti ég myndavél.
 Það eru á þessu merki í bak og fyrir.
 Þetta er greinilega frá tíma ávísanahefta.
 Merkjavara smerkjavara.
 Fyrirbærið hefur meir að segja kennitölu!
Mér finnst þetta samt ekkert fallegt og hef aldrei getað sett mig í spor fólks sem borgar fúlgur fjár fyrir dót sem hefur ekki neitt við sig annað en að vera merkt á tiltekinn hátt á meðan óþekkt húsmóðir saumar til dæmis flík sem er hrein snilld en er lítils virði í aurum talið vegna þess að skaparinn er "enginn sérstakur." Held að hvatirnar sem stjórna þessu séu þær sömu og valdið geta múgæsingu.
Svo er þetta veski kannski bara eftirlíking en það kemur alveg út á eitt í mínum huga.

Þessi bakgrunnur passar fyrir leðurveski. (Sem líka er úr plasti og tauborða)