laugardagur, 17. desember 2011

54. Afi og amma.

Víkur nú sögu að afa og ömmu eiginmannsins.
Hann er yngsta barn nokkuð fullorðinna foreldra svo að hver kynslóð teygist tiltölulega langt aftur.
 Hér í þessum fína heimatilbúna ramma eru Öndólfsstaðahjónin Guðfinna Kristín Sigurðardóttir 1868-1953 og Stefán Jónsson 1860-1951. Hann ku hafa verið skondinn fýr og er víða nefndur í frásögnum. Vel gefinn og ekki mikið fyrir að læðast um að manni skilst.
 Ramminn er náttúrulega kveikjan að þessu bloggi en ég hef enga hugmynd um hver muni hafa gert hann eða hvenær, en hann á sinn stað á hillunni neðan við fjölskylduvegginn.
Hér eru þau hjón með börnum sínum nema tveim þeim yngstu sem ekki eru fædd þarna. Hvítklædda stúlkan fremst er tengdamóðir mín, Friðrika Stefánsdóttir, fædd 1908, dáin 1994.
Ég skoða þessa mynd með mikilli athygli og þá helst hálstauið. Þarna má til dæmis glöggt sjá á Sólveigu hvernig var í tísku á þessum tíma að hnýta peysufataslifsið og ekki væri nú leiðinlegt að eiga svona kraga eins og kjólklæddu stúlkurnar Ása og Guðfinna eru með. Ég öfunda Jón hins vegar alls ekki neitt af hvíta flibbanum stífa, það getur varla hafa verið þægilegt að kinka kolli með þennan búnað.

mánudagur, 12. desember 2011

53. Baukasending

Hingað barst jólapakki í gærkvöldi og í pokanum flutu með 8 baukar. Það er stundum ofurlítið blendin ánægja að taka á móti svona sendingum því að eins og ég nefni stundum á ég nú þegar nokkra bauka en alltaf er samt gaman að fá svona og því minni sem baukarnir eru því betra oftast nær. Það er bara sagt vegna plásslegra sjónarmiða. Ég myndaði þá á kistunni hennar langömmu.
 Mér er ekkert um tóbak gefið en tóbaksbaukar eru skemmtilegir, afar fjölbreyttir og það sem best er, tiltölulega litlir oftast nær.
 Hálstöflur koma sér oft vel. Held að ég hafi ekki séð svona strepsilsbauk fyrr. Á þrjá aðra.
 Hér er öndvegis hollenskur kakóbaukur. Held ég verði að finna honum stað HÉRNA í stofunni því að þar eru allir hinir kakóbaukarnir mínir nema sá sem er í notkun.
Hverskonar ævintýrabuff skyldi nú þetta hafa verið?
 Einnig barst "ný" Chupasleykjó fata, sú græna í miðjunni. Einhver virðist hafa þurft að hvíla lúin bein og sest á hana þannig að hún er ekki alveg eins hávaxin og í upphafi en ég get ekkert verið að láta það trufla mig. Systur hennar tvær taka henni fagnandi.
Síðastur kom upp úr pokanum þessi rauði hægra megin á myndinni. Ég horfði á hann um stund og fann næstum létti þegar ég fattaði að SVONA HORFI ég alltaf á úr rúminu mínu, þá var óþarfi að finna honum pláss, en nei, ekki svo gott. Þarna hafa þeir notað sömu mynd en útfært á annan hátt. Ok, þá bara skipti ég út einum jólabauk, þessir þurfa að fá að vera saman.
Knús fyrir sendinguna krakkar mínir en þið megið gjarna setja hér hvaðan þetta er komið, eða ef þið vitið einhverja sögu þeirra.

föstudagur, 9. desember 2011

52. Þröskuldur.

Það eru eiginlega áhöld um það stundum hvort bloggfærsla á betur heima á hvunndagsblogginu eða gamladagablogginu. Þannig er það til dæmis þegar ég er að tala um viðgerðir á húsinu. Húsið er nebblega gamalt dót. Byggt 1946.
 Hér er ég með svefnherbergisþröskuldinn úti í garði.
 Hér er hann niðri í geymslu.
Og nú er hann kominn á sinn stað og það finnst mér gaman. Raunar á ég eftir að skrúfa hann fastan en það er lítið mál. Lakara að gólfdúkarnir beggja megin við hann eru farnir að láta töluvert á sjá, ég get vel harkað það af mér sjónvarpsstofumegin en svefnherbergisgólffjalirnar skaaal ég pússa einhvern daginn / árið.
HÉR Má sjá meðferð þröskuldanna niðri á gangi í umfjöllun á hvunndagsblogginu.

miðvikudagur, 7. desember 2011

51. Slökkvarar

Í málningarstandi undanfarinna mánaða setti ég mér að mála ekki oftar þröskulda. Ég gat heldur ekki fengið mig til að mála slökkvara og er nú búin að hreinsa upp þrjá af fjórum gömlum.
 Þetta er ekki hrist fram úr erminni frekar en sumt annað. Fyrst er að skafa.
 Svo þarf að pússa og pússa, síðast með mjög fínum sandpappír. Þegar það er búið er slökkvarinn ekki alveg nógu fínn, svona grámattur
svo ég prófaði að lakka yfir þegar ég var að lakka þröskulda og sjá; fínt fínt.

föstudagur, 2. desember 2011

50. Meira minjasafn

Á minjasafninu á Akureyri er á neðstu hæð sýning sem gefur smá innsýn í sögu atvinnuvega á svæðinu og hýbýli fólksins. Þessa mynd tók ég á svæði lista og menningar.
 Ekki hefur verið leiðinlegt að vera klædd þessum kjól á leiksviði gamla samkomuhússins þar sem Leikfélag Akureyrar hefur verið til húsa alla tíð.
 Hér mun vera litið inn í stofu hjá einhverjum af "betri borgurum" bæjarins. Þarf helst alltaf að smella mynd af svona gripum eins og þið vitið.
Mér er ekki fullljóst samhengið í þessum skáp og man ekkert hvað á miðanum stendur, en innihaldið höfðar mjög til mín.
Uppfært: Jú, þegar ég stækkaði myndina mjá sjá að hér eru leifar vertshúsamenningar sem fundust við rannsókn í kjallara Aðalstrætis 14.

mánudagur, 21. nóvember 2011

49. Minjasafngripur

Öllum sem lesa hér má vera ljóst að ég hef áhuga á gömlu dóti og þar með safngripum ýmsum. Það er nú samt kannski ekki gefið mál að ég hafi ætlað að vera safngripur sjálf að staðaldri.
Ég var á minjasafninu á Akureyri á laugardaginn að halda upp á afmæli Laufáshópsins/Handraðans og þá fór ég niður til að leita að mynd sem ég hafði haft spurnir af.
Þarna virðist ég sem sagt koma fram sem fulltrúi allra frystihúskvenna Eyjafjarðarsvæðisins frá upphafi! Toppið það.
Þetta finnst mér skemmtilegt.

miðvikudagur, 9. nóvember 2011

48. Spariföt

Ég tók mynd af fjölskylduveggnum.
 Hér má sjá syni mína þrjá á myndum sem teknar eru af þeim þegar þeir eru komnir dálítið á annað ár. Þeir eru allir klæddir sömu sparifötunum, grænum buxum og vesti og með slaufu um háls. Þessi föt saumaði ég á elsta soninn árið 1976 úr afgöngum af efninu sem við foreldrar þeirra höfðum í brúðarklæði okkar árið áður. Við vorum sem sagt bæði í grænum jakkafötum þá.
 Nú í haust tók ég svo fötin til handargagns og endurnýjaði teygjur og tölur enda hvort tveggja orðið morkið og þreytt. Ég stytti svo buxurnar talsvert og þvoði allt saman og tók með mér til Egilsstaða núna um síðustu helgi.
 Þar straujaði og pressaði ég fötin og afhenti þau pilti sem á eins árs afmæli í dag. SJÁ HÉR.
Laglega flottur kallinn!

47. Kommóða

Ég hef víst ýjað að því áður að ekki var neitt sérstaklega mikið verið að passa upp á gamalt dót hér á bæ áður en ég kom til. Þessi kommóða var komin út í fjárhús og þar var meðal annars smíðað á henni. Ofan á henni voru allrahanda olíu og brunablettir og annað eftir því. Mamma tók hana fljótlega í yfirhalningu og svona er hún nú:
Ekki varð hjá því komist að skipta út plötunni ofan á, en annað var pússað upp og settar nýjar höldur og mér finnst húsgagnið eiga mun betur heima í betri stofu en í fjárhúsi. Hún geymir fyrir mig betri hnífapör, dúka og þessháttar og í neðstu skúffunni eru fjölskylduspil. Þetta hefur trúlega verið víða til, einu sinni sá ég til dæmis mjög svipað eintak á flóamarkaði í Danmörku. Hér er líka til skápur sem ég bjargaði úr drasli og var komin nokkuð áleiðis með uppgerð á en hann dagaði uppi í bili. Vonandi birtist hann hér á síðunni einn góðan veðurdag.

laugardagur, 29. október 2011

46. Jólabaukar

Nú er jólabaukadeildin búin að fá samastað í tilverunni. Nánar tiltekið efst uppi á vegg í svefnherberginu þannig að nú getur eiginmaðurinn haft jól fyrir augunum allt árið um kring. Hann saknar þess alltaf þegar ég tek niður skrautið sem ég hengi yfir rúminu.
Þarna nota ég kassalengjurnar sem afgangs urðu HÉRNA
og þá kemur þetta svona út.
Eins og sjá má eru það 24 baukar sem flokkast sem jóla. Sumir eru á gráu svæði þannig að kannski skipti ég þeim út ef nauðsynlegt reynist að bæta einhverjum við þarna en mig vantar í sjálfu sér ekki bauka sko. Ég tek skýrt fram að fólk á ekki að fara og kaupa "einhvern" bauk handa mér. Mér finnst hins vegar ferlega gaman að eignast gamlan flottan bauk og í ljósi fyrirferðar eru þeir oftast nær því betri sem þeir eru minni.
Ég segi líklega frá því einhvern tíma hvað þeir eru margir heima hjá mér nú um stundir, það er langt síðan ég taldi síðast svo að ég veit ekki vel hvað þeir eru mörg hundruð. Nú eru væntanlega 52 baukar í svefnherberginu til dæmis :) . Þessi bakgrunnsmynd er tekin þar inni og þrír eru á KÓKKASSANUM á veggnum.

fimmtudagur, 27. október 2011

45. Þar hafa þeir ylinn úr.

Ég flutti árið 1979 með fjölskyldunni í gamalt hús á Ísafirði. Gömlum húsum tilheyra næstum alltaf kjallarar með ýmsum kompum, svo sem eins og kolageymslum, þvottahúsum og jafnvel stundum vinnukonuherbergjum. Oftar held ég þó að þær hafi verið geymdar á háaloftum en það er líklega önnur saga. Íbúðinni sem við keyptum í þessu stóra húsi fylgdi sem sé kjallarapláss. Um þetta leyti hafði ég um annað að hugsa en rannsóknarleiðangra um kjallarakompur, á þessum vikum skrapp ég í að eignast annað barnið mitt og svona, þannig að eiginmaðurinn gat kannað málin í friði og hann fann þar þennan:
 Hann laumaðist til að pússa gripinn upp og burðaðist svo með hann upp á afmælinu mínu og gaf mér hann.
Hann hafði fundið flest sem tilheyrði nema hvað gripurinn var kollóttur.
Alla tíð síðan velti ég fyrir mér hvernig hatturinn myndi hafa verið og í apríl 2009 rak ég nefið inn hjá Fríðu frænku í Reykjavíkinni og fann þar einhvers lags lok sem mér virtist að gæti gengið þó að það sé nokkuð ljóst að það er ekki hið eina rétta. Á myndunum hér að ofan er þetta lok en áratugina fram að því var ég yfirleitt með blómapott ofan á ofninum og það var svo sem ágætt líka.
Þá sjaldan sem ég rekst á svipaða ofna er mér innanbrjósts eins og um sé að ræða kæran ættingja. Hér eru sýnishorn:
Þessi er í vistarverum vinnufólks í kjallara herragarðs í Danmörku.
Þessi á heima á Bustarfelli
og þessi líka. Hann er heldur íburðarminni en hefur væntanlega yljað jafn vel.
Get ekki stillt mig um að sýna ykkur í leiðinni þetta snilldarflotta hitunartæki sem einnig er í gamla Bustarfellsbænum. Ég hef ekki séð neitt þessu líkt fyrr. Á þessu stendur stórum stöfum prímus en það hafði ég hingað til litið svo á að væri bara stykki svipað partinum sem sést undir fyrir miðju. Þarna fjölfaldast hann sem sagt í þrjár hellur!
Að lokum er hér mynd sem ég hirti einhvern tíma af netinu en því miður man ég bara hreint ekki hvaðan.
Uppfært:
 Gleymdi: Ofninn lengst til hægri á neðstu myndinni er líklega sá ofn sem ég hef fundið sem er líkastur mínum.

þriðjudagur, 18. október 2011

44. Puntu..

Ég var að fara að svara athugasemd við síðustu færslu þegar ég sá að betra væri að koma bara með nýja.
Ég skoðaði stykkið og myndaði og rifjaði betur upp.

Efnið sem saumað er í er greinilega hveitipoki. Það finnst mér skemmtilegt. Í þessu er blettur sem tæplega fer. Það er galli. Bletturinn er utarlega þannig að hægt er að sauma hann burt. Gallinn úr sögunni.
Ef ég man það rétt að Lóa hafi hugsað þetta sem puntuhandklæði þarf væntanlega að bæta öðru efni á alla kanta. Held ég. Hef bara ekki áhuga á puntuhandklæðum þannig að verkefni er frestað.
Útsaumnum er greinilega lokið og ég man og sé að ég hef saumað blómin hægra megin en ég man ekki hversu mikið ég saumaði af parinu. 
Verðum bara að sjá til hvað framtíðin ber í skauti sér.

43. Kollur

Fyrir nokkrum árum gaf mamma mér þennan koll. Endur fyrir löngu smíðaði pabbi tvo svona kolla og fyrst þegar ég man þá þjónuðu þeir sem náttborð foreldra minna. Ég spurði mömmu nýlega hvenær þeir voru smíðaðir og hún mundi það ekki fyrir víst, giskaði þó á að þeir gætu hafa verið gerðir úr afgöngum frá kojusmíðinni árið 1957 eða svo. Sú koja var mikill dýrðarstaður í mínum unga huga og þess vegna endaði til dæmis alltaf lagið um alla krakka svona: ...lyfta mér á kreik - og koju. Ég hafði ekki nokkra hugmynd um hvar þessi kreikur var og hafði þar af leiðandi engan áhuga á að komast þangað. Öðru máli gegndi um þriggja hæða kojuna sem bræður mínir sváfu í! Það var dýrðarstaður en útilokað að komast upp í efstu hæðina af eigin rammleik. Ég spurði mömmu líka í leiðinni hvað orðið hefði um kojuna góðu og hún er að mestu leyti orðin að eldhúsgólfi og fleiru í sumarbústaðnum hennar. Einhverjir partar breyttust líka í varning sem hún er búin að selja í Kaðlín.
Sem sagt hafa kollarnir "alltaf" verið til hvað mig varðar. Þegar foreldrar mínir skildu fengu þau hvort sinn stólinn og hinn er núna hjá systur minni að ég held. Mamma saumaði ekki löngu síðar áklæði á þennan sem ekki spillir. 
 Í kollinum er hirsla og hvað er betur við hæfi en að geyma þar útsaumsdót?
Verð þó að viðurkenna að við því hefur ekki verið mikið hreyft í áratugi. Þetta sem liggur efst er svonefnt puntuhandklæði sem kona móðurbróður míns gaf mér liklega árið 1967 þegar ég var hjá þeim í sveit. Hún var eitthvað byrjuð á saumnum en ég tók svo við en ekkert man ég hvers vegna ég er ekki búin með stykkið. Kannski er það vegna þess að ég myndi tæplega nota það neitt. Kannski bara vegna leti.

mánudagur, 17. október 2011

42. Athugasemdir


Mér finnst afar sorglegt að ég skuli ekki fá að njóta athugasemda ykkar af því að fólki sem ekki er með bloggsíðu sjálft tekst ekki að setja þær inn. Hafið þið prófað svona?

Sendu inn athugasemd

(Hér er reitur til að skrifa textann inn í)

 Select profile

Nú smellir þú á select profile og þar færð þú möguleikann Name/URL og færð þetta:

Edit profile
Þarna getur þú kvittað og ég held að þú þurfir ekki einu sinni að skrifa netfang en er þó ekki viss.
Næst kemur þá líklega staðfestingarorð sem þú skrifar og þá hlýtur þetta að vera komið. Svona kvittaði ég alltaf hjá Fríðu áður en ég fór að blogga sjálf og það gekk fínt.


Látið mig endilega vita ef þetta gengur ekki 

miðvikudagur, 12. október 2011

41. Rúgbrauðskassinn


Hér er færsla úr gamla blogginu mínu. Ákvað að afrita hana frekar en að vísa á hana af því að ég neyðist til að hafa það læst til að hindra ruslathugasemdir sem mokast inn á flestar blogcentralsíður nú um stundir. Lykilorðið þar er talan og er allsekki leyndarmál.

19.12.2008 09:24:21 / tumsa

356. Rúgbrauðskassinn

Ég sá um daginn rúgbrauðskassa í Frúnni í Hamborg, keypti hann ekki en dauðsá fljótlega eftir því. Í gærkvöldi brunaði ég svo til Akureyrar að sækja danina mína, þ.e. barnið mitt og tengdabarnið, og þá byrjaði ég á að fara í Frúna með slatta af dótinu sem ekki gekk út í portinu um daginn og bjóða það þar til kaups. Það gekk eftir að hluta, ég losnaði við sumt, borgaði 2000 kall á milli og fór út alsæl með kassann góða. Fór svo til mömmu minnar og hafði út úr henni svolítið af spýtum úr gamla Holtakotabænum þar sem hún fæddist, en þær ætla ég að hafa sem hillur í kassanum sem þar með verður eitt fínasta húsgagnið á bráðum nýmáluðum stofuvegg. Myndir birtast þegar þar að kemur. 

Þetta var sem sagt í desember 2008 svo sem sjá má, en hér eru nýlegar myndir sem hæfa betur dótabloggi en þær sem ég setti um árið á hvunndagsbloggið þegar ég átti ekkert dótablogg.Sumt af því sem í kassanum er hefur nú þegar fengið umfjöllun hér, sumt kemur kannski seinna.
Í tilefni dagsins skipti ég um bakgrunn.

Uppfært: Hehe maður er stundum svo sljór. Það var ekki fyrr en núna að ég áttaði mig á að það vantaði einn bauk í lyftiduftsbaukadeildina þegar ég myndaði hana um daginn og birti  hér í færslu númer 36.

sunnudagur, 2. október 2011

40."Nýju" gangljósin

Í  þessari færslu skrifaði ég um ljósin á ganginum niðri. Þá finnst mér rétt að ljúka þeirri sögu hér líka, ég er mjög ánægð með útkomuna, ekki síst hve lagnirnar eru mikið nettari núna.
Um lagfæringarnar niðri að öðru leiti fjalla ég á hvunndagsblogginu þó að segja megi að ekki séu skörp skil á efninu þar sem ég er að tala um lagfæringar og viðhald á húsi sem er hátt á sjötugsaldri.

39. Slæður

Skrapp með gamlan bakpoka í Kynlega kvisti um daginn og horfði þá auðvitað svolítið í kring um mig í leiðinni og viti menn; enginn baukur til í búðinni! 
Ég fór þó ekki tómhent heim, fann tvær langar þunnar slæður en þær eru afar nýtilegar til að þæfa á þær. Verða þá annað hvort treflar eða dúkar nema hvort tveggja sé.
Svo auðvitað fáeinar körfur undir handverk :).

mánudagur, 19. september 2011

38. Enn úr Fjölsmiðjunni

Þegar ég sótti gluggana mína til Akureyrar í vikunni leit ég við í Fjölsmiðjunni og ætlaði svona sérstaklega að leita eftir snögum. Fann einn.
Mikið var til af reglulega fallegum diskum. Tók þarna bara fjóra núna. Mig vantar líklega ekkert diska. Þeir þurfa skápapláss greyin. Alltaf brúk fyrir tágakörfur undir handverk eða mosaskreytingar til dæmis. Svo þarf að nota að minnsta kosti tvær möppur á ári og gerir ekkert til þó að einhver annar hafi notað þær áður. Og svo eru þarna tveir fyrirtaks baukar. Þarf ég þá? Tjaaa. Mig minnir að ég hafi greitt 1700 krónur fyrir þennan farm. Ég leit núna inn í deild sem ég hef ekki tekið eftir þarna fyrr en það er bóka og blaðadeildin. Skoða það betur seinna, slíkt tekur tíma. Nú voru þarna líka þónokkur túbusjónvörp og nokkrar körfur fullar af fjarstýringum!

fimmtudagur, 15. september 2011

37. Pinnastóllinn

Setjum hér smá tilbreytingu við alla baukana.
Mamma er dugleg að gera upp gömul húsgögn.
Hún gaf mér / okkur þennan stól í afmælis / brúðar gjöf hérna um árið. Það er bráðabirgðaáklæði á setunni og ekki gott að segja hvenær ég kem því í verk að vefa eða sauma út í viðeigandi setu. Stóllinn er samt fínn.

laugardagur, 10. september 2011

36. Lyftum oss á kreik

Ég verð alltaf fyrir einhverjum töfum við endurskipulagningu baukasafnsins en hér er mynd sem ég tók um daginn af lyftiduftsdeildinni. Ef þið labbið um og haldið að þarna séu sumir baukar eins þá er það mesti misskilningur, það munar stundum á texta og svo eru sumir strikamerktir og aðrir ekki.
Nú skríðum við í fimmþúsund innlit á þessu bloggi.

mánudagur, 15. ágúst 2011

35. Heilsteyptir

Þegar ég var að þrífa þessa dönsku bauka sá ég að þeir voru í einu atriði afar frábrugðnir félögum sínum, baukurinn er steyptur í heilu lagi alveg án samskeyta, þ.e. ekki botnplata sér. Þetta hef ég ekki séð nema á smábaukum eins og undan kremi, tóbaki, hálsmolum og slíkum varningi.

34. Nærmyndir

Best að helminga hilluna svo að betur sjáist:
 Ofan við er nammideildin og yfir í kaffið,
neðan við förum við svo úr kaffinu yfir í kakóið.
Þessar skilgreiningar eiga þó bara við um hólfin, ofan á eru aðallega nammibaukar + örfáir undan kexi.
 Glöggir skoðarar taka ef til vill eftir því að ég er þegar farin að breyta, þetta eru ekki nákvæmlega þeir sömu og voru þarna fyrst. Þegar ég er að gramsa og endurraða kemur sitthvað í ljós sem var gleymt.
Það ýtir á eftir þessu verki að ég má til að klára að mála ganginn niðri áður en þornar alveg í málningarrúllunum í plastpokunum og fyrst ég er þar með málningu í umferð er eins gott að skella sér í að mála gömlu hilluna sem er undirstaða safnsins í eldhúsinu en hún lítur ekki sérlega vel út núna:

laugardagur, 13. ágúst 2011

33. Stofubaukar

Það er alltaf vont þegar ung manneskja fellur frá. Í þetta sinn var það maður sem ég þekkti eingöngu í gegn um blogg en hann var einn fárra íslenskra dótabloggara. Nú bætist líklega ekki við bloggið á rúi og stúi.

Loksins er ég búin að koma upp hillunni í stofunni. Í síðustu færslu sýndi ég ykkur parta úr verslunarinnréttingu. Ég sagaði sundur og skeytti saman og úr því varð þetta.
Í hólfunum eru baukar undan kakói, kaffi og sælgæti, aðallega súkkulaði. Já ég veit, það hefði passað betur að halda sig við drykki og hafa tebauka í stað sælgætisins, en tebaukar eru yfirleitt svo litlir að þeir hefðu ekki farið vel í þetta stórum hólfum. Ofan á eru svo sælgætisbaukar ásamt örfáum undan kexi. Þetta er 41 baukur.
Baukarnir í eldhúsinu voru orðnir allt of margir, skítugir og í óreiðu og þarna á stofuveggnum var hentugasta plássið fyrir svona hillu. Þegar ég var með dyggri aðstoð Ingimundar búin að festa hana upp sýndi ég manninum og spurði undirleit hvort þetta væri alveg galið, þá svaraði hann umburðarlyndur eins og oftast: Hér inni er hvort sem er flest galið.
Nú liggur sem sagt fyrir að þrífa og endurraða restinni og mér þykir sennilegt að það þurfi að blogga um það af og til. Ég er að finna út úr þessari nýju tölvu minni smátt og smátt.
Horfum svo bara á Landann annað kvöld, það verður fróðlegt að sjá hvernig þeir veiða bestu partana úr öllum upptökunum frá í fyrradag.

föstudagur, 1. júlí 2011

32. Flóamarkaður

 Fór nýlega í kaupstaðinn og varð þá fyrir því happi að komast í tæri við verslunarinnréttingu sem átti að henda. Þetta er hluti þess sem ég kom í bílinn:
Þetta er komið í ýmislegt brúk en enn er eftir að útfæra ýmis not.
Á heimleiðinni kom ég því loks í verk að heimsækja flóamarkaðinn að Dæli í Fnjóskadal. Það var skemmtilegt. Þar hitti ég meðal annars þennan fína bauk:
Ég bauð part af innréttingunni í býtti og gengið var að tilboðinu og allir glaðir.
Nú er borðtölvan mín óstarfhæf með öllu og ég er í fyrsta sinn á æfinni að blogga á fartölvu og þetta gengur svona og svona en trúlega má venjast þessu eins og öðru.

fimmtudagur, 16. júní 2011

31. Ljósin í bænum

Í síðustu viku átti ég erindi til Akureyrar og þar fann ég í Fjölsmiðjunni ljósin sem ég var að leita að fyrir ganginn niðri. Þar er ég núna með ljós sem ég keypti í Svíþjóð um árið þegar ég var með gráu delluna, en þá setti ég þau í nýju íbúðina mína á Akureyri. Hér passar reyndar ekki vel að hafa hangandi ljós (já já, seint að fatta það núna eftir tuttugu ár!) því að gangurinn er bæði lágur og þröngur og það er viss passi að þegar ég á leið þar um með gólfmoppuna skal ég alltaf reka skaftið í að minnsta kosti annað ljósið svo að klingir hátt. Það er dálítið leiðinlegt að auglýsa alltaf þannig klaufaskap sinn. Nú er auk þess annað ljósið bundið afar pent upp með baggabandi vegna þess að frystiskápsflykkið mitt er svo hávaxið og enn ekki komið á sinn stað. Rykið á ljósinu stafar að langstærstum hluta af því að ég er enn ekki búin að sparsla allt sem þarf þarna niðri og það tekur því ekki að moka út fyrr en að því loknu.
Þessi munu passa miklu betur og gera ekki nærri eins mikinn hávaða. Verð: 200 krónur pr. stk.
Vandinn er hins vegar sá að gangloftið er klætt baneitruðu og bönnuðu asbesti og rafvirkjasonurinn þverskallast við að bora í það svo að það er víst best að ég geri það bara sjálf. Ef til vill dugar nú að nota bara göt þau sem fyrir eru, það er ekki fullkannað.
Uppfært: Sjá þessa færslu hér