sunnudagur, 20. febrúar 2011

10. Peysufötin mín

Margur heldur mig sig er stundum sagt og samkvæmt því er ég viss um að allir sem eitthvað eru farnir að hugsa hafa velt fyrir sér hverju þeir vildu fyrst bjarga ef svo illa færi að upp kæmi eldur á heimilinu. Nú á ég að sjálfsögðu við að frátöldu mannfólkinu. Lengi hugsaði ég um myndaalbúmin en núna færi ég fyrst út með peysufötin mín og svo borðtölvuna. Í tölvunni eru meðal annars svo óskaplega margar vinnustundir geymdar í handverks og búskaparbókhaldi auk allra mynda sem ég hef tekið síðustu fjögur árin. Já, ég er trassi að taka afrit.

Þessi færsla snýst um peysufötin. Ég ætla meira að segja að hafa svo mikið við að hafa nokkrar færslur um þau. Ég hika ekki við að halda því fram að þau séu ættargripur því að þó að ég hafi saumað þau, segir það ekki alla söguna þar sem þeim fylgir sitt af hverju.

Svo ég byrji nú á byrjuninni þá man ég ekkert hvað langt er síðan ég fór að hugsa um að koma mér upp íslenskum búningi. Ég taldi lengi vel að upphlutur væri fínni en svo lærði ég að peysuföt hefðu þótt meira spari. Mér finnst hvort tveggja mjög fínt en val mitt réðist aðallega af því að ekki þarf eins mikinn dýran málm í peysufötin. Þar kemst þú af með að eiga bara skúfhólkinn á meðan upphlutur þarf til viðbótar að lágmarki að hafa millur, belti og baldíraða eða steypta borða. Svo má bæta við í báðum tilvikum nælum, húfuprjónum, svuntuhnappi og fleiru.

Svo kom að því að Kaðlín á Húsavík auglýsti námskeið í saumi á upphlut og eða peysufötum. Þetta var árið 1994 eða 5, og löngu áður en ég gekk í þetta ágæta félag. Ég lét ekki segja mér þetta tvisvar en fór á námskeiðið og saumaði peysufötin. Það var náttúrulega ekki nóg því nú vantaði allt sem við átti að éta. Ég var sjálfri mér samkvæm og ætlaði mér að vinna sjálf frá grunni bæði húfu og svuntu úr ullinni af mínum kindum. Ég veit hins vegar að ekki gengur að gleypa heiminn í einum bita svo að ég ákvað að bíða ekki svo lengi með að fara að nota fötin þannig að þegar ég hafði ákveðið að gifta mig í þeim hafði ég samband við mikla uppáhaldsfrænku sem ég vissi að var búin að vefa nokkra svuntudúka og spurði hvort hún myndi fáanleg til að lána mér einn fyrir tilefnið. Það komu á hana örlitlar vöfflur en svo sagði hún það sjálfsagt. Þegar hún svo mætti í brúðkaupið mitt á Þeistareykjum á fertugsafmælinu mínu þann sautjánda ágúst 1996 afhenti hún mér dálítinn böggul og úr honum kom þessi svunta:
Þá skellti ég upp úr og skildi hikið sem kom á hana við bón mína. Hún sagðist enda þá löngu hafa ákveðið að gefa mér í svuntu. Þessi kæra frænka mín var móðursystir mín Ingigerður Einarsdóttir (1924-2006) Á svuntuna setti ég svo silfurhnapp eins og þá sem eru á hátíðarbúningi eiginmannsins. Þessi mynd af okkur var ekki tekin í okkar brúðkaupi heldur sonar hans í Hafnarfjarðarkirkju 14 árum seinna, eða síðastliðið sumar.
Í þessum fötum er ég við hátíðleg tækifæri í nánustu fjölskyldu svo sem skírnir, fermingar og brúðkaup afkomenda okkar og við jarðarför pabba. Auk þess við þjóðleg tækifæri eins og 17. júní og einnig lék ég í þeim í Landsmótinu bæði á Breiðumýri og í Þjóðleikhúsinu.
Nú er ég búin að gera saumaskap mínum og svuntunni frá Ingu skil, framhald í næstu færslu.

3 ummæli:

 1. Glæsileg ertu í þínum peysufötum og svuntukornið dáfagurt!

  SvaraEyða
 2. Kærar þakkir frú mín góð.

  Nú er miðnætti aðfararnótt mánudagsins 21 febrúar, bloggið er 40 daga gamalt og innlit 1000. Mér finnst það ekki sérlega mikið.

  SvaraEyða
 3. Alveg er ég hætt að fylgjast með því hversu margir koma inn á síðuna mína. Ég gerði það oft áður og furðaði mig helst á því hversu fáir kvitta fyrir komu sína. Hefur þú skráð þig hér: http://blogg.gattin.is/ ?

  SvaraEyða