föstudagur, 25. febrúar 2011

12. Þriðji í peysufötum

Eins og fram hefur komið er það grundvallaratriði að hafa skúfhólk með peysufötum. Ég man ekki hvert var aðalerindi mitt suður hérna um árið, 1995 held ég, en ég var þar eitthvað með pabba og við vorum boðin í mat ásamt Siggu frænku til Dísu systur þeirra. -Herdís Elísabet Jónsdóttir f. 5. júní 1924.- Þar kom fram í okkar spjalli að ég færi á stúfana morguninn eftir að kaupa mér hólk. Þá litu þær hvor á aðra og sögðu að ég skyldi nú hinkra aðeins með það. Svo sýndu þær mér fallega muni frá mömmu þeirra, ömmu minni, sem þær voru bara heldur glaðar með að yrðu í notkun í ættinni. Raunar gáfu þær mér meira en ég þurfti því að þær fengu mér tvo hólka, nælu og svuntuhnapp sem á var letrað stórt A.!!! Einn grip fékk ég í viðbót sem fer í næstu færslu. Svo fékk ég að láni frá þeim svuntu og slifsi sem ég notaði þegar ég fermdi yngsta soninn. Þá var ég nefnilega ekki búin að koma upp mínu slifsi og svuntunni frá Ingu.
Annar hólkurinn var svona sexkantaður en hinn hringlóttur. Ég ákvað þá strax með sjálfri mér að þar sem við systur erum bara tvær og hin heitir auk þess eftir ömmu þá ætti hún að fá hnappinn og annan hólkinn. Ekki þó fyrr en hún sýndi áhuga á að fara nota slíkt. Svona gripir eiga ekkert að daga uppi í skúffum og hillum finnst mér. Ég gat samt ómögulega verið að bíða lengur en lét hana hafa þá í fimmtugsafmælisgjöf í haust. Nú bíð ég spennt eftir að hún hefji saumaskapinn :)
Dúkurinn á myndinni er frá Siggu frænku.

miðvikudagur, 23. febrúar 2011

11. Annar í peysufötum

Með peysufötum er afar mikilvægt að hafa fallegt slifsi. Á árum áður sýndu piltar til dæmis hug sinn með því að gefa stúlkunni sinni fallegt silki í slifsi. Mikið vildi ég oft óska þess að gömlu peysufatamyndirnar væru í lit, ansi oft virðast slifsin svört þegar þau eru áreiðanlega blá græn eða rauð.
Móðuramma mín, Jónasína Sveinsdóttir (1890 - 1967) saumaði sér endur fyrir löngu þetta fína slifsi sem er hér vinstra megin á myndinni.
Eins og sjá má má það muna fífil sinn fegri og er dottið alveg í sundur og nánast hægt að lesa í gegn um partana. Ég leitaði mjög lengi og mikið að fallegu silki í þessum lit og hún Dóra móðursystir fann það loks fyrir mig í búð sem mig minnir að héti Uppsetningabúðin. Hún keypti þar líka fyrir mig kögrið og útsaumsgarnið. Þá gat ég loksins gert eftirlíkingu af slifsinu hennar ömmu. Mér fannst að gaman væri að setja svolítið meiri lit þannig að ég valdi rautt í blómið en mikið sá ég eftir því þegar ég hafði þvegið gripinn í fyrsta skipti. Djö... liturinn rann aðeins út svo að ég hefði betur haldið mig við gula blómið. Ég hef ákveðið að líta framhjá því og enginn hefur sagt mér að það stingi í augun. Mér þykir vænt um þetta slifsi.

sunnudagur, 20. febrúar 2011

10. Peysufötin mín

Margur heldur mig sig er stundum sagt og samkvæmt því er ég viss um að allir sem eitthvað eru farnir að hugsa hafa velt fyrir sér hverju þeir vildu fyrst bjarga ef svo illa færi að upp kæmi eldur á heimilinu. Nú á ég að sjálfsögðu við að frátöldu mannfólkinu. Lengi hugsaði ég um myndaalbúmin en núna færi ég fyrst út með peysufötin mín og svo borðtölvuna. Í tölvunni eru meðal annars svo óskaplega margar vinnustundir geymdar í handverks og búskaparbókhaldi auk allra mynda sem ég hef tekið síðustu fjögur árin. Já, ég er trassi að taka afrit.

Þessi færsla snýst um peysufötin. Ég ætla meira að segja að hafa svo mikið við að hafa nokkrar færslur um þau. Ég hika ekki við að halda því fram að þau séu ættargripur því að þó að ég hafi saumað þau, segir það ekki alla söguna þar sem þeim fylgir sitt af hverju.

Svo ég byrji nú á byrjuninni þá man ég ekkert hvað langt er síðan ég fór að hugsa um að koma mér upp íslenskum búningi. Ég taldi lengi vel að upphlutur væri fínni en svo lærði ég að peysuföt hefðu þótt meira spari. Mér finnst hvort tveggja mjög fínt en val mitt réðist aðallega af því að ekki þarf eins mikinn dýran málm í peysufötin. Þar kemst þú af með að eiga bara skúfhólkinn á meðan upphlutur þarf til viðbótar að lágmarki að hafa millur, belti og baldíraða eða steypta borða. Svo má bæta við í báðum tilvikum nælum, húfuprjónum, svuntuhnappi og fleiru.

Svo kom að því að Kaðlín á Húsavík auglýsti námskeið í saumi á upphlut og eða peysufötum. Þetta var árið 1994 eða 5, og löngu áður en ég gekk í þetta ágæta félag. Ég lét ekki segja mér þetta tvisvar en fór á námskeiðið og saumaði peysufötin. Það var náttúrulega ekki nóg því nú vantaði allt sem við átti að éta. Ég var sjálfri mér samkvæm og ætlaði mér að vinna sjálf frá grunni bæði húfu og svuntu úr ullinni af mínum kindum. Ég veit hins vegar að ekki gengur að gleypa heiminn í einum bita svo að ég ákvað að bíða ekki svo lengi með að fara að nota fötin þannig að þegar ég hafði ákveðið að gifta mig í þeim hafði ég samband við mikla uppáhaldsfrænku sem ég vissi að var búin að vefa nokkra svuntudúka og spurði hvort hún myndi fáanleg til að lána mér einn fyrir tilefnið. Það komu á hana örlitlar vöfflur en svo sagði hún það sjálfsagt. Þegar hún svo mætti í brúðkaupið mitt á Þeistareykjum á fertugsafmælinu mínu þann sautjánda ágúst 1996 afhenti hún mér dálítinn böggul og úr honum kom þessi svunta:
Þá skellti ég upp úr og skildi hikið sem kom á hana við bón mína. Hún sagðist enda þá löngu hafa ákveðið að gefa mér í svuntu. Þessi kæra frænka mín var móðursystir mín Ingigerður Einarsdóttir (1924-2006) Á svuntuna setti ég svo silfurhnapp eins og þá sem eru á hátíðarbúningi eiginmannsins. Þessi mynd af okkur var ekki tekin í okkar brúðkaupi heldur sonar hans í Hafnarfjarðarkirkju 14 árum seinna, eða síðastliðið sumar.
Í þessum fötum er ég við hátíðleg tækifæri í nánustu fjölskyldu svo sem skírnir, fermingar og brúðkaup afkomenda okkar og við jarðarför pabba. Auk þess við þjóðleg tækifæri eins og 17. júní og einnig lék ég í þeim í Landsmótinu bæði á Breiðumýri og í Þjóðleikhúsinu.
Nú er ég búin að gera saumaskap mínum og svuntunni frá Ingu skil, framhald í næstu færslu.

mánudagur, 14. febrúar 2011

9. Baukurinn hennar ömmu

Þegar Sigga frænka (föðursystir) dó fékk ég þennan fína bauk. Pabbi (1928 - 2009) mundi vel eftir honum frá sínu bernskuheimili en þar dvaldi hann ekki nema til 15 eða 16 ára aldurs. Amma mín, Árnfríður Ingvarsdóttir (1885 - 1950) átti baukinn og ekki gott að vita síðan hvenær. Mér finnst hann reglulega fínn.

Kannski er hann kominn einhversstaðar langt austan að, kannski ekki.

þriðjudagur, 8. febrúar 2011

8. Langamma og systur

Ég hirti þessa mynd og pistil af fréttasíðu BB á Ísafirði. Vona að það sé í lagi af því að þetta er nú fjölskyldan mín og höfundarréttur væntanlega fyrndur. Eða eitthvað.

Vissulega er þetta dótablogg en ég set þær systur hér vegna þess að ég var að tala um krúsina hennar Herdísar langömmu og á eftir að minnast hennar hér aftur.

---------------------------------------------------------

Herdís, María og Ólína Andrésdætur. Mynd: reykholar.is.

Fjallað um tvíburasystur og skáldkonur. Annar húslestur vetrarins verður haldinn í Safnahúsinu á Ísafirði á morgun, laugardag kl. 14. Er það er liður í samstarfi Kómedíuleikhússins við Safnahúsið á Ísafirði að bjóða upp á vestfirska húslestra yfir vetrartímann á Ísafirði. Að þessu sinni verður fjallað um tvíburasysturnar og skáldkonurnar Herdísar og Ólínu Andrésdætur í Flatey á Breiðafirði sem fæddust fyrir rúmlega 150 árum. Sagt hefur verið að Herdís og Ólína séu dæmi um að merk skáld Íslandssögunnar geta fallið milli stafs og hurðar bókmenntaumræðunnar. Elfar Logi Hannesson les úr verkum þeirra og Jóna Símonía Bjarnadóttir fjallar um ævi þeirra og kvæðagerð.
---------------------------------------------------------------
Tilvitnun lýkur.
María var ein af allnokkrum af þessari ætt sem náðu að lifa meira en öld. Hún varð að mig minnir 106 ára. Eitt af þekktum kvæðum Ólínu hefst svo: Sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn...
Andrés faðir þeirra og Matthías Jochumsson voru systrasynir.

7. Fyrsti baukurinn minn

Ég veit að þeir sem þekkja mig hafa verið að bíða eftir að ég sýni mitt rétta eðli og setji hér inn baukafærslur. Þær verða margar verið þið viss, ég er þó með aðaláhersluna á gamalt fjölskyldudót og þess háttar svona til að byrja með. Það skarast fram og aftur svo að hér kemur til dæmis sá fyrsti sem ég eignaðist. Þegar ég flutti á fyrsta árinu til Akureyrar lentum við í nágrenni við góða konu. Hún var einhleyp og mikið til aðstoðar á heimili systur sinnar sem var heilsutæp. Við leigðum ofurlitla íbúð í húsi systurfjölskyldunnar í Lækjargilinu og varð talsverður samgangur enda þröngt búið, fjögur börn í hvorri íbúð, við vorum tvö á fyrsta árinu og elsta hefur varla verið meira en 8 eða 9 ára. Konan sem ég er að minnast hét hjá okkur Stína. Hið opinbera hefur vafalaust talið að hún héti Kristín en það er ekki mitt mál. Hún varð okkur nánast sem amma enda höfðum við systkin ekki náin kynni af neinni slíkri. Áttum eina móðurömmu sem ég tel að ég hafi hitt tvisvar eða þrisvar. Peningalitlar barnmargar fjölskyldur voru ekki að flengjast í ferðalögum um landið í tíma og ótíma á sjötta áratugnum. Stína varð sjálfsögð í öllum skírnar og fermingarveislum og hún hélt okkur jólaboð og alltaf stóðu hennar dyr okkur opnar. Mér þætti fróðlegt að vita aldur hennar, mér fannst hún alltaf gömul en það er ekkert að marka, dómgreind krakka er svolítið óviss þegar um aldur fólks er að ræða. Spyr mömmu, mömmur eiga að vita allt. Hún bara svarar ekki símanum núna.
Stína gaf mér í afmælisgjöf þennan fína bauk:
Ég veit ekki hvenær, en miðað við það sem ég man að ég geymdi í honum þegar ég var krakki er ég viss um að ég hef ekki verið meira en svo sem 8 ára. Þetta varð mín aðal hirsla og þarna mátti finna til dæmis eldspýtnastokkasafn, hárlokk af sjálfri mér lítilli, lítin plastgítar með mynd af bítlunum og sitthvað fleira. Fæst af þessu er ennþá til. Síðar fór að eiga þarna heima ýmislegt saumadót en núna eru það þráðarleggir með handspunninni ull og spávölur. Þetta er trúlega allt til marks um þroskaferil minn eða hvað?
Ég hef bara séð einn annan svona bauk og hann átti Stína sjálf.
Uppfært: Stína var fædd 1912 og ég 1956. Hún var sem sagt á svipuðum aldri á þessum árum og ég er núna :) Mér datt það í hug.

föstudagur, 4. febrúar 2011

6. Krúsin hennar langömmu

Ég byrjaði þetta blogg á fatakistu langömmu minnar. Hér er annað ílát úr tré frá annarri langömmu minni.
Þetta ílát er mun nettara en hið fyrra, þvermál opsins er 7 cm.Þessi langamma mín var Herdís Andrésdóttir skáldkona, fædd í Flatey á Breiðafirði 1858, dáin í Reykjavík 1939. Sonur hennar var Jón Ólafur Jónsson (1884-1945) Meðal hans barna voru Sigríður Ragnhildur (1917-2007) og pabbi minn Kjartan (1928-2009)
Þegar Sigga frænka dó fékk ég þessa krús. Hún hafði orðið hálfpartinn afgangs og innihélt sitthvað smálegt. Ég tók hana því að mér en leit ekki neðan á hana fyrr en heim var komið.

Þarna kennir ýmissa grasa; eyrnalokkar, ermahnappar, barmmerki og efst liggur gullfyllt tönn! Mér er ókunnugt hvaðan hún kemur en vafalaust er hún náskyld mér :)
Herdísar er líklega oftast getið þegar fólk syngur afmælisdikt Þórbergs sem hann orti til nöfnu minnar, dóttur Herdísar en hjá henni dvaldi gamla konan síðustu árin.

"Þar er Herdís, þar er smúkt, þar skín sól í heiði"