fimmtudagur, 17. maí 2012

70. Bláa peysan

Til að geta haft gagn af gestum og gangandi er gott ráð að eiga sæmilegt úrval af fötum til allra handa skítverka fyrir allan aldur. Það er ekki vandamál hér þar sem ég er með þeim ósköpum gerð að geta helst engu hent. Svoleiðis er einmitt líklegasta fólkið til að vera með svona gamladagablogg. Uppáhalds vinnupeysa elsta sonarsonarins er gömul blá prjónapeysa sem hefur ýmislegt fengið að reyna um sína daga. Það var engin lukka þegar kom í ljós gat með tilheyrandi lykkjuföllum á þeirri gömlu en ég brást þó ekki við alveg strax þannig að gatið náði að stækka óþarflega mikið. Hér er aðgerðin hafin.
 Gömul prjónavélarnál er nauðsynlegt amboð á hverju heimili.
 Og hér er sú gamla orðin sem ný,
tja, fyrir utan gamla sviðablettinn en hann kemur þessu máli ekkert við.

sunnudagur, 6. maí 2012

69. Tengdamamma

Það eru ekki bara dauðir hlutir sem geta flokkast sem gamalt dót með sögu og sál. Þegar ég sá tengdamömmuna á baunarblogginu varð mér hugsað til blómanna minna sem vel að merkja eru flest eða öll áratugagömul. Þessa fékk ég hjá tengdamóður minni um miðjan áttunda áratuginn eða fyrir hátt í 40 árum.
Ég er svo búin að gefa að minnsta kosti 2 tengdadætrum af plöntunni en hef ekki kannað nýlega hvort þær plöntur hafa lifað af.