laugardagur, 21. maí 2011

28. Undir nálinni

Ég þreyttist á að fara á aðra bæi til að sikksakka svo að ég keypti mér prýðisgóða heimilissaumavél í versluninni Neista á Ísafirði svona um það bil árið 1977 eða 8. Hún heitir Necchi Lydia og er að ég held eina appelsínugula búsgagnið mitt. Ég óttast fátt meir en að hún endist ekki jafn lengi og ég því mig langar ekki minnstu vitund að aðlagast nýrri. Það er svo gott að kunna utan að og ómeðvitað á verkfærin sem maður er að nota. Hún hefur vissulega látið á sjá og til dæmis er bæði ljósið og þræðarinn löngu óstarfhæf en það truflar mig ekki vitund.
Eftir að ég vann á skinnasaumastofunni á verksmiðjunum á Akureyri á seinni hluta níunda áratugarins bauðst starfsfólki að kaupa vélarnar þar þegar ákveðið var að hætta rekstrinum. Ég hugsaði mig ekki um og þar eignaðist ég góðan grip. Þá gat ég lagt handsnúnu Singervélinni hennar ömmu. Þetta er öflug beinsaumsvél og ég nota hana mikið í handverkinu, skinnasaumi, gallaviðgerðum og öðru sem þarf afl.
Já og hún heitir Pfaff en ég veit ekkert hvaða merki elsta ryðgaða vélin er. Kannski er hægt að grufla það upp með því að grandskoða vélina hjá Fröken Blómfríði ef hún er ekki seld.
Nú er eftir ein saumavélafærsla enn. Sjáumst þar.

miðvikudagur, 18. maí 2011

27. Saumum áfram

Þegar ég hóf búskap þurfti auðvitað að gera sér grein fyrir því hvað þyrfti að vera til á hverju heimili. Það er klassískt að tala um rúm, borð og stól.  Ætli fyrsta rúmið hafi ekki verið gamli dívaninn frá mömmu með holunni í miðjunni. Hann hefur trúlega verið ein og hálf breidd. Önnur húsgögn voru svipaður samtíningur. Rafmagnstæki ýmiskonar komu til tals síðar, en þar var efst á blaði að mér þótti ekki annað koma til mála en að saumavél hlyti að þurfa að vera til á hverju heimili. Ég bjó í þó nokkur ár án þess að eiga ísskáp, frysti, sjónvarp eða sjálfvirka þvottavél. Snemma í ferlinum vorum við til heimilis hjá afa í Biskupstungunum og þar var gamla saumavélin hennar ömmu sem ég fékk að nota. Þegar ég flutti frá afa spurði ég hvort ég mætti hafa vélina að láni þangað til ég gæti keypt mér nýja og afi brosti og taldi best að ég ætti hana bara, ekki notaði hann hana. Þetta var betra en ég hefði þorað að vona. Hérna er hún blessunin:
 Kassinn fór illa í flutningagámi þegar ég flutti frá Ísafirði um árið.
Með þessari saumavél vann ég margt og mikið þangað til ég fékk mér rafmagnsvél og einnig eftir það, því að hún er sterkari en nýjar vélar þannig að ég saumaði leðurfatnað og allskonar þykk efni í henni. Gallinn var bara sá að hún sikksakkar ekki þannig að þegar ég þurfti slíkt var annað hvort að beygja sitt á hvað alla brúnina eða rölta með efnið til ættingja á Ísafirði og bregða því í sikksakk þar :)
Lengi eftir að ég fór að nota rafmagnsvélina fór hægri hendin sjálfkrafa á loft í áttina að sveifinni þegar átti að leggja af stað. Stundum þegar ég þurfti á báðum mínum höndum að halda við að stýra efninu undir nálina var gott að eiga litlu strákana mína að til snúa sveifinni.
Þessi vél lék í Fiðlaranum á þakinu á Breiðumýri um árið og stóð sig vel í því eins og öðru.
Ekki verður séð að getu hennar hafi í nokkru hrakað frá upphafi.

mánudagur, 16. maí 2011

26. Ein ég sit og sauma

Hér er gripurinn sem höfðaði einna helst til mín hjá Fröken Blómfríði um daginn:
Á verðmiðanum stendur 23.000 og vélin mun vera um það bil 120 ára, ég gætti ekki að því hvort hægt er að sauma á hana en við að rýna í myndina tel ég það hæpið. Mér finnst þetta afar flottur gripur en ég þarf ekkert að eiga hana, ég á nefnilega þetta hér:
Ég fæ ekki betur séð en að þetta muni vera nákvæmlega sama tegund en mín hefur orðið fyrir umtalsvert meiri hrakningum í veröldinni.
Fyrir rúmum 30 árum var ég ásamt fjölskyldunni á ferð um Jökulfirðina á litlum fiskibát og við svona dóluðum okkur um og fórum í land þar og þegar okkur sýndist. Fjölskyldan var ég, eiginmaðurinn, 4 ára sonur og 3 vikna sonur. Svo var með okkur vinkona með tvö börn. Þar sem við áðum heillaðist ég mjög af ruslahaugunum við eyðibýlin. Þegar fólkið af svæðinu flutti burt, var það lifandi fegið að komast í rafmagnið og var ekkert að hafa fyrir því að drösla með sér þungum og fyrirferðarmiklum hlutum eins og eldunartækjum og slíku sem ekki var brúk fyrir meir. Þar á haugunum lá því ýmiskonar fánýti úr pottjárni sem þau voru orðin þreytt á en mér og sumum ykkar þykja dýrindi þó að ekki sé mögulegt að færa það til fyrra horfs.
Fótstykkið á saumavélinni var í tvennu eða þrennu lagi og hjólið einnig brotið en bróðir minn einn elskulegur var svo góður að setja hana saman. Alveg var hann þó gáttaður á þessari rugluðu systur. Fleiri parta fann ég ekki. Notagildi vélarinnar er einna helst fólgið í að hún er prýðileg til útstillinga í sambandi við handverkið.

miðvikudagur, 11. maí 2011

25. Fröken Blómfríður

 Í síðustu færslu kvaðst ég myndi segja frá nýju fínu búðinni á Akureyri og hér kemur hún.
Hún er í innbænum, (uppfært: nokkrum skrefum norðan við hina landsfrægu ísbúð Brynju) í húsi sem hýsti gosdrykkjaverksmiðjuna Sana þegar ég var mjög lítil.
 Þarna er margt skemmtilegt að sjá og hér er bara svolítið sýnishorn.
Fínasti gripurinn fyrir minn smekk kemur í næstu færslu, þarf fyrst að taka mynd hér heima. 
Svona er farið að því að byggja upp spennu er það ekki?
Jájá neinei ég segi nú bara svona. Þetta síðasta er tilvitnun í færeyska afbragðsbók sem heitir Feðgar á ferð.