miðvikudagur, 23. febrúar 2011

11. Annar í peysufötum

Með peysufötum er afar mikilvægt að hafa fallegt slifsi. Á árum áður sýndu piltar til dæmis hug sinn með því að gefa stúlkunni sinni fallegt silki í slifsi. Mikið vildi ég oft óska þess að gömlu peysufatamyndirnar væru í lit, ansi oft virðast slifsin svört þegar þau eru áreiðanlega blá græn eða rauð.
Móðuramma mín, Jónasína Sveinsdóttir (1890 - 1967) saumaði sér endur fyrir löngu þetta fína slifsi sem er hér vinstra megin á myndinni.
Eins og sjá má má það muna fífil sinn fegri og er dottið alveg í sundur og nánast hægt að lesa í gegn um partana. Ég leitaði mjög lengi og mikið að fallegu silki í þessum lit og hún Dóra móðursystir fann það loks fyrir mig í búð sem mig minnir að héti Uppsetningabúðin. Hún keypti þar líka fyrir mig kögrið og útsaumsgarnið. Þá gat ég loksins gert eftirlíkingu af slifsinu hennar ömmu. Mér fannst að gaman væri að setja svolítið meiri lit þannig að ég valdi rautt í blómið en mikið sá ég eftir því þegar ég hafði þvegið gripinn í fyrsta skipti. Djö... liturinn rann aðeins út svo að ég hefði betur haldið mig við gula blómið. Ég hef ákveðið að líta framhjá því og enginn hefur sagt mér að það stingi í augun. Mér þykir vænt um þetta slifsi.

9 ummæli:

  1. Ofsalega falleg bæði tvö þrátt fyrir að annað sé gatslitið og hitt útrunnið : )

    SvaraEyða
  2. Haha útrunnið já. Hafði ekki hugsað út í það.

    SvaraEyða
  3. Tekur annars nokkur eftir því að slifsið er útrunnið, nema þú talir um það? Ég sá það altjént ekki á myndinni, en tekst ágætlega að ýmynda mér það nú þegar ég veit það.

    SvaraEyða
  4. Gleymdu því bara í hvelli.

    SvaraEyða
  5. Kristín í París25. febrúar 2011 kl. 10:26

    Mamma hefur verið að biðja mig um að fá að sauma á mig peysuföt. Ég hef alltaf beiðst undan því, en svei mér ef þú ert ekki að sannfæra mig um að leyfa henni það barasta:)

    SvaraEyða
  6. Vaáá hvað þú ert heppin með mömmu! Er ekki kvarta yfir minni, hún studdi mig vel í framkvæmdinni en verkið "neyddist" ég til að vinna sjálf

    SvaraEyða
  7. Sumir eiga líka systur sem eru alltaf að tala um hvenær maður ætlar að fara að sauma upphlut á mann

    SvaraEyða
  8. Fríða vittu hvort mamma Kristínar er ekki til í að ættleiða þig!

    SvaraEyða
  9. :) Nei, ég á eina systur og það er nóg! Ég er reyndar mjög heppin með hana að mörgu leyti. Bæði er hún yndisleg, góð og klár, og svo gengur hún aldrei í pilsum, og yrði ekki vitund svekkt þó mamma saumaði á mig en ekki á hana.

    SvaraEyða