föstudagur, 4. febrúar 2011

6. Krúsin hennar langömmu

Ég byrjaði þetta blogg á fatakistu langömmu minnar. Hér er annað ílát úr tré frá annarri langömmu minni.
Þetta ílát er mun nettara en hið fyrra, þvermál opsins er 7 cm.Þessi langamma mín var Herdís Andrésdóttir skáldkona, fædd í Flatey á Breiðafirði 1858, dáin í Reykjavík 1939. Sonur hennar var Jón Ólafur Jónsson (1884-1945) Meðal hans barna voru Sigríður Ragnhildur (1917-2007) og pabbi minn Kjartan (1928-2009)
Þegar Sigga frænka dó fékk ég þessa krús. Hún hafði orðið hálfpartinn afgangs og innihélt sitthvað smálegt. Ég tók hana því að mér en leit ekki neðan á hana fyrr en heim var komið.

Þarna kennir ýmissa grasa; eyrnalokkar, ermahnappar, barmmerki og efst liggur gullfyllt tönn! Mér er ókunnugt hvaðan hún kemur en vafalaust er hún náskyld mér :)
Herdísar er líklega oftast getið þegar fólk syngur afmælisdikt Þórbergs sem hann orti til nöfnu minnar, dóttur Herdísar en hjá henni dvaldi gamla konan síðustu árin.

"Þar er Herdís, þar er smúkt, þar skín sól í heiði"


3 ummæli:

 1. Ja hérna! Þetta er merkileg krús. Ertu skáldmælt eins og formóðir þín?

  SvaraEyða
 2. Kristín í París4. febrúar 2011 kl. 12:35

  Flott hjá Sigríði að merkja hana svona, hefði kannski mátt hafa ártöl langömmu þinnar með. Tönnin er náttúrulega punkturinn yfir i-ið:)

  SvaraEyða
 3. Æinei Baun. Ég get stöku sinnum barið saman rétt kveðna vísu en það er alls ekki nóg til að geta einu sinni talist hagyrðingur.
  Já Kristín, einmitt!

  SvaraEyða