föstudagur, 4. mars 2011

13. Toppurinn á peysufötunum

Þó mig gigtin þjái grimm
og þunnan beri eg lokkinn,
séð hef ég árin 75
sit ég enn við rokkinn.
Herdís Andrésdóttir.
Þessa vísu skrifaði ég upp eftir Gerði Kristnýju sem fór með hana í útvarpsmessu nú nýlega. Vísan er ekki í kvæðabók systranna sem ég á og ég veit ekki hvar hún finnst á prenti svo ég er ekki viss um stafsetninguna. Hef heyrt hana áður en er því miður léleg að læra vísur.
Eins og kom fram hér áður hafði ég hugsað mér að vinna sjálf húfuna úr ullinni af Norðurhlíðarkindunum. Í fyrrgreindri heimsókn okkar pabba og Siggu til Dísu um árið gáfu þær mér ekki bara búningasilfur heldur gáfu þær mér líka eitt enn og haldið ykkur nú: Ég fékk húfu sem Herdís langamma gaf tilvonandi tengdadóttur sinni sem varð amma mín. Það eru yfir hundrað ár síðan amma og afi gengu í hjónaband og ég lít á þessa húfu sem einn mesta dýrgrip minn. Vafalaust er hún unnin frá grunni af langömmu sem var rómuð fyrir góða tóvinnu. Bandið er fíngert þelband en sökum elli var hún nokkuð farin að upplitast og grána þannig að ég byrjaði á að láta lita hana svarta og greiddi fyrir það heilar 300 krónur.
Ég keypti skúf.
Það sést ekki vel á myndinni að hún er líka mjög falleg á röngunni. Til að húfan sitji betur er þjóðráð að sauma lítin kamb fremst að innanverðu og túbera svolítið hárið, þá er mesta furða hvað hún tollir með svörtu títuprjónunum, jafnvel þó hárið sé stuttklippt og eða þunnt. Mér finnst stundum erfitt að sitja á mér að hlaupa til og aðstoða þegar ég sé húfu sem er að leka af höfði einhvers sem er óvön þessum klæðnaði. Kann ekki við það ef ég þekki viðkomandi ekkert en einu sinni náði ég að koma í veg fyrir að mamma fermingarbarns færi inn í kirkjuna í öfugu pilsinu, fram það sem átti að snúa aftur. Hefði orðið ansi áberandi við altarisgönguna.

3 ummæli:

 1. Einstaklega falleg húfa, skil hreinlega ekki hvernig er hægt að prjóna svona vel. Vildi óska að ég hefði kunnað þetta kambs-ráð þegar ég var að bögglast með mína húfu, hún hékk alltaf rammskökk á mér:/

  SvaraEyða
 2. Kristín í París5. mars 2011 kl. 08:03

  Vá, vá, vá! Þú ert gersamlega búin að kveikja í mér. Þegar mamma kemur til mín núna upp úr miðjum mars (lifi punktakerfið!)sýni ég henni skrifin þín og ræði alvarlega um peysufatagerð:)

  SvaraEyða
 3. Kæra kveðju til mömmu þinnar :)

  SvaraEyða