miðvikudagur, 19. janúar 2011

3. Forngripur?

Skammt norðan við bernskuheimili mitt eru gamlir sjávarbakkar sem í mínu ungdæmi voru grasi grónir að mestu en sumstaðar höfðu þó fallið úr þeim smáskriður svo að þar voru kjöraðstæður fyrir bílaleiki með tilheyrandi vegagerð og lékum við systkinin okkur oft þarna. Við áttum heiminn og gátum þar af leiðandi óhrædd skilið allt eftir þarna á milli leikja án þess að aðrir spilltu nokkru. Náttúran er þó alltaf söm við sig og einhverju sinni þegar við komum að hafði fallið skriða sem olli því að að minnsta kosti einn uppáhaldsbíll sást aldrei meir. Þarna hef ég trúlega verið ca. 5 -7 ára, ég er ekki viss um að stóru strákarnir hafi nennt þessum leikjum lengur en þeir eru þremur og fjórum árum eldri en ég. Þegar þessir bræður mínir voru farnir að vinna í skógræktinni komu þeir meðal annars að því að planta þarna í brekkurnar svo að þar er nú eflings skógur og fullkomlega útilokað að fara í bílaleik. Þarna undir brekkunni var vafalaust þjóðleið frá landnámstíma nema að ef til vill hefur verið betra að fara ofan við bakkann í bleytutíð. Oft hefur þá umferðin verið mikil því allir sem áttu leið af Austurlandinu og Eyjafirðinum til Akureyrar eða lengra þurftu að fara þarna um nema þeir færu sjóleiðina.

Einhverju sinni fann ég þarna lítinn skrautlegan hlut úr málmi og fór að sjálfsögðu með hann heim. Maður fór auðvitað heim með allar gersemar, hvort sem um var að ræða kuðung, skrautlegan stein eða dauðan fugl. (Þess má geta að ég kom upp fuglakirkjugarði í brekkunni sunnan við ána en hann er fullkomlega horfinn í skóg.) Mömmu þótti gripurinn athyglisverður og bjargaði honum frá því að lenda í glatkistunni. Hún telur talsverðar líkur á að þetta sé skrautdoppa af einhverjum reiðtygjum og hefur séð myndir af svipuðu í verkum Kristjáns Eldjárns. Ef ske kynni að ég verði nú einhvern tíma stödd í Reykjavíkinni þegar þeir meta gripi á Þjóðminjasafninu væri fróðlegt að láta kíkja á þetta.

Ég eltist, flutti að heiman og gleymdi þessu en fyrir ekki mörgum árum fékk ég þetta í jólagjöf frá mömmu:

Þá var hún búin að renna undir þetta þennan fína stand. Nú er semsagt spurningin þessi: Á ég forngrip eða ekki?

Kannski er mér næstum sama - og þó.2 ummæli:

  1. Einhvern tímann auglýsti Þjóðminjasafnið dag þar sem fólk gæti komið með gripina sína til að láta meta þá, kannski verður það endurtekið...

    Doppan er sallafín á sínum stalli:)

    SvaraEyða
  2. Einmitt, þeir gera það af og til. Spurning hvenær ég hitti á slíkt.

    SvaraEyða