laugardagur, 21. maí 2011

28. Undir nálinni

Ég þreyttist á að fara á aðra bæi til að sikksakka svo að ég keypti mér prýðisgóða heimilissaumavél í versluninni Neista á Ísafirði svona um það bil árið 1977 eða 8. Hún heitir Necchi Lydia og er að ég held eina appelsínugula búsgagnið mitt. Ég óttast fátt meir en að hún endist ekki jafn lengi og ég því mig langar ekki minnstu vitund að aðlagast nýrri. Það er svo gott að kunna utan að og ómeðvitað á verkfærin sem maður er að nota. Hún hefur vissulega látið á sjá og til dæmis er bæði ljósið og þræðarinn löngu óstarfhæf en það truflar mig ekki vitund.
Eftir að ég vann á skinnasaumastofunni á verksmiðjunum á Akureyri á seinni hluta níunda áratugarins bauðst starfsfólki að kaupa vélarnar þar þegar ákveðið var að hætta rekstrinum. Ég hugsaði mig ekki um og þar eignaðist ég góðan grip. Þá gat ég lagt handsnúnu Singervélinni hennar ömmu. Þetta er öflug beinsaumsvél og ég nota hana mikið í handverkinu, skinnasaumi, gallaviðgerðum og öðru sem þarf afl.
Já og hún heitir Pfaff en ég veit ekkert hvaða merki elsta ryðgaða vélin er. Kannski er hægt að grufla það upp með því að grandskoða vélina hjá Fröken Blómfríði ef hún er ekki seld.
Nú er eftir ein saumavélafærsla enn. Sjáumst þar.

4 ummæli:

  1. Þórdís frænka22. júní 2011 kl. 10:11

    Það er eins gott að Páll bróðir minn komist ekki í þessa appelsínugulu, hann safnar nefnilega appelsínugulum húsbúnaði. :)

    SvaraEyða
  2. :) Svo er hún auðvitað Ísfirðingur eins og hann.

    SvaraEyða