miðvikudagur, 8. júní 2011

30. Fleiri kvistir

Nýlega kom ég við í Kynlegum kvistum á Húsavík. Erindið var að gá hvort enn væru til nokkrir litlir snagar sem mig minnir endilega að ég hafi séð þar um daginn en þeir fundust ekki nú. 
Ekki skal ég segja hvort það stafaði af 
a: Misminni mínu.
b: Þeir hafi selst.
c: Húsráðendur höfðu nýlega tekið til! Ææ, tiltektir geta hæglega orðið til bölvunar.

Aldrei fór nú samt svo að ég færi tómhent heim frekar en fyrri daginn.
 Þrír mismunandi leirdiskar undir blómapotta, karfa til skreytingagerðar, útiljós, súkkulaðibaukur frá Harrods,
 bráðfín rjómakanna,
 og einn pínulítill baukur sem inniheldur loftriffilskot ásamt einni sérlega ískyggilegri pílu með rauðu stéli. Oj.
Baukafíkn mín veldur því að ég ágirnist umbúðir af ýmsum óvinum mínum svo sem eins og skotfærum og allra handa nikótíni.
Þegar þessi baukur var nú kominn í mína eigu áttaði ég mig á að ég er komin með vísi að skotabaukasafni!
Ég á nú nefnilega að minnsta kosti þrjá. Sá ferkantaði er til mín kominn frá dönskum fyrrum mági sem átti hann eftir afa sinn. Innihaldið er þarna við hliðina. Miðsonurinn fann slíkan á sænskri síðu þar sem hann verðlagðist á tíkall að mig minnir en minn er ekkert til sölu frekar en aðrir mínir baukar. Um þriðja baukinn man ég enga sögu.
Fyrir farminn úr Kvistunum greiddi ég þúsundkall þó að verðlagningin hafi verið eitthvað ögn lægri.

3 ummæli:

  1. Sæt þessi litla rjómakanna, en skotboxin höfða ekki sterkt til mín:/

    SvaraEyða
  2. Skotbaukasafn? Það er alla vega frumlegt...

    SvaraEyða
  3. 3ji baukurinn er undan kúlunum í loftriffilinn minn sem þú minnist örugglega með mikilli hlýju, já og hann Dúi líka..

    Ingimundur

    SvaraEyða