þriðjudagur, 24. apríl 2012

68. "Gluggatjaldahillur"

Þegar ég málaði sjónvarpsstofuna í vetur fjarlægði ég allar gluggatjaldafestingar og persónulega væri mér alveg sama þótt hér væru engin gluggatjöld. Ég hef ekkert á móti dagsbirtunni, tjöld trufla blóm, gluggarnir eru bráðfallegir eins og þeir eru og engin hætta á að einhverjir nágrannar eða vegfarendur kíki á gluggana. 
Hins vegar eru hér inni bæði sjónvarp og tölva og það getur verið truflandi að fá blessað sólskinið á skjáina. Jakob brást svona við því um daginn. Hann situr sem sagt hérna við tölvuna.
 Svo að ég hef frá upphafi reiknað með gluggatjöldum. Ég vildi samt breyta svolítið uppsetningunni þannig að í fyrsta lagi þurfti að hreinsa málninguna af gömlu veggfestingunum. Eða kaupa nýjar. Ég er ekkert mikið í slíku svo að ég fór og fann flösku með ullabjakki og var að gá að pensli þegar ég fékk hugljómun; því skyldi maður vera að eyðileggja pensil fyrir örfáar strokur? Ég tók íspinnaspýtu og fann gamla tusku. Ég fann ekki skæri í fljótu bragði svo að ég kveikti á söginni og sagaði af tuskunni smá snepil (já ég veit, klikkað.) Ég límdi tuskuna á spýtuna með límbandi og þar var kominn vel nothæfur pensill!
 Ég bar á festingarnar, skóf og pússaði og hundleiddist að ég skyldi ekki hafa nennt að skrúfa draslið af veggnum um árið þegar ég málaði stofuna fyrst. Svona er þetta bara, gamlar syndir koma manni í koll.
 Svo settum við Ingimundur tvær langar spýtur upp á vegginn og það var bras eins og ég bjóst við en við erum snillingar svo að þetta gekk. Gluggatjaldafestingarnar komu svo neðan á spýturnar þannig að tjöldin verða nær glugganum en ella hefði verið.
 Þetta var svo tilgangurinn með spýtunum :). Er nokkur hissa?
 Á þessari hillu eru kexbaukar. Flestir danskir en einnig frá Írlandi, Englandi, Hollandi og Portúgal. Á endanum er svo íslenskur konfektbaukur vegna þess að það er nauðsynlegt að hafa kantaðan útvörð til að ekki rúlli allt saman ofan á sjónvarpið.
Á þessum væng eru aðallega ferkantaðir af ýmsu tagi. Nú eru sem sé 32 baukar fluttir úr eldhúsinu inn í þessa stofu. Það er til bóta þar sem eldhúsryk nálægt eldavélum vill verða fitugt og það er ekki nógu hentugt fyrir sumt baukalakk.

2 ummæli: