sunnudagur, 16. janúar 2011

2. Kistan


Mér finnst við hæfi að byrja þetta hlutablogg á fatakistu langömmu minnar. Mér veittist sá heiður í sumar að taka hana að mér. Seint ætti ég svo mikið af búshlutum að ég segði að ég hefði ekki pláss fyrir svona grip.
Dóróthea Högnadóttir langamma mín var fædd 21. október 1853 og dáin 1894. Eftir hana fékk kistuna dóttir hennar Jónasína Sveinsdóttir amma mín, 1890 - 1967. Þá móðursystir mín Dóróthea Sveina Einarsdóttir sem vegna heilsubrests hefur ekki tök á að passa hana lengur og fólkið hennar bauð mér gripinn. Vita líklega hversu skrýtilega ég er innréttuð.
Ekki er vitað hve gömul kistan er en ekki er ósennilegt að langamma hafi fengið hana ung kona, svona þegar hún fór að þurfa stað fyrir eigin föt. Kannski til dæmis á milli 1860 og 1870? Ekki gott að vita. Ekki er heldur vitað hvort einhver átti hana áður.
Þegar mamma man kistuna í gamla bænum í Holtakotum var hún vel lokuð, svo vel að einhvern tíma fannst lykillinn ekki og endaði með því að afi þurfti að skemma læsinguna til að opna. Seinna fannst svo lykillinn reyndar en ekki er nein læsing í kistunni núna. Eftir að kistan fluttist svo í nútímalegra húsnæði með því hitastigi sem fylgir fór lokið að verpast og vindast. Svolítið velti Dóra frænka því fyrir sér að láta lagfæra það en ákvað svo að gera ekkert í því. Ég ætla það ekki heldur, hún á bara að bera sín ellimörk án lýtaaðgerða. Kistan er upphaflega máluð í þessum millibrúna lit og skrautlaus. Í henni er handraði. Eins og sést hefur einhvern tíma þurft að skipta út hjörunum öðru megin.
Ég stefni að því að hafa hana við hliðina á sófasettinu skrýtna í sparistofunni og útbúa sessu ofan á hana svo að hægt sé að sitja á henni í fjölmennum boðum án þess að fá lykkjufall á sokk. Sessan verður svo bara ofan í henni hvunndags.

6 ummæli:

  1. Kristín í París17. janúar 2011 kl. 09:41

    Falleg kista!

    SvaraEyða
  2. Maður hefur gott af því að hugsa til þess að áður fyrr gat fólk komið öllu sínu hafurtaski fyrir í einni kistu.

    Amma mín og afi í Öxarfirði áttu að minnsta kosti tvær svona, báðar skreyttar, misfallega reyndar. Ef ég byggi nær hefði ég reynt að bera víurnar í aðra þeirra. Í Svíþjóð er þetta selt dýrum dómum svo maður lætur sig bara dreyma ...

    SvaraEyða
  3. gaman fyrir þig að hafa eignast þessa kistu....mér dettur í hug hvort ekki hafi hún , langa langamma, haft heimanmund sinn í kistunni þeirri arna... bara svona hugleiðing

    með kveðju, Eva :-D

    SvaraEyða
  4. Þetta er fallegur gripur með mikla sögu. Úr hvaða viði ætli hún sé smíðuð?

    SvaraEyða
  5. Já takk Kristín. Segðu Krummi! ég hugsa stöku sinnum til þess með skelfingu ef ég þyrfti einhvern tíma að flytja búferlum með dótið mitt. Hehe.
    Eva,jú ég velti þessu fyrir mér, hún eignaðist ekki fyrsta barnið fyrr en um þrítugt svo að ég giska á að hún gæti hafa verið farin að heiman í vinnumennsku eitthvað fyrr og kannski fengið sér kistuna þá. Heldurðu að amma þín viti nokkuð um þetta? Ég gleymdi held ég að spyrja hana í afmæli mömmu í haust.

    SvaraEyða
  6. Já og Baun, mamma taldi að þetta væri bara fura.

    SvaraEyða