mánudagur, 12. desember 2011

53. Baukasending

Hingað barst jólapakki í gærkvöldi og í pokanum flutu með 8 baukar. Það er stundum ofurlítið blendin ánægja að taka á móti svona sendingum því að eins og ég nefni stundum á ég nú þegar nokkra bauka en alltaf er samt gaman að fá svona og því minni sem baukarnir eru því betra oftast nær. Það er bara sagt vegna plásslegra sjónarmiða. Ég myndaði þá á kistunni hennar langömmu.
 Mér er ekkert um tóbak gefið en tóbaksbaukar eru skemmtilegir, afar fjölbreyttir og það sem best er, tiltölulega litlir oftast nær.
 Hálstöflur koma sér oft vel. Held að ég hafi ekki séð svona strepsilsbauk fyrr. Á þrjá aðra.
 Hér er öndvegis hollenskur kakóbaukur. Held ég verði að finna honum stað HÉRNA í stofunni því að þar eru allir hinir kakóbaukarnir mínir nema sá sem er í notkun.
Hverskonar ævintýrabuff skyldi nú þetta hafa verið?
 Einnig barst "ný" Chupasleykjó fata, sú græna í miðjunni. Einhver virðist hafa þurft að hvíla lúin bein og sest á hana þannig að hún er ekki alveg eins hávaxin og í upphafi en ég get ekkert verið að láta það trufla mig. Systur hennar tvær taka henni fagnandi.
Síðastur kom upp úr pokanum þessi rauði hægra megin á myndinni. Ég horfði á hann um stund og fann næstum létti þegar ég fattaði að SVONA HORFI ég alltaf á úr rúminu mínu, þá var óþarfi að finna honum pláss, en nei, ekki svo gott. Þarna hafa þeir notað sömu mynd en útfært á annan hátt. Ok, þá bara skipti ég út einum jólabauk, þessir þurfa að fá að vera saman.
Knús fyrir sendinguna krakkar mínir en þið megið gjarna setja hér hvaðan þetta er komið, eða ef þið vitið einhverja sögu þeirra.

4 ummæli:

  1. Ég á nákvæmlega eins svona bauk eins og þennan neðsta hjá þér til hægri. Við pöntum stundum köku frá þessu texaska bakaríi fyrir jólin. Baukurinn á sér síðan heiðurssess hér heima því hann var notaður, ásamt sleif, í búsáhaldabyltingunni :)

    SvaraEyða
  2. Þá er víst best að reyna að grufla upp hvaðan baukarnir koma. Tóbaksbaukarnir eru frá reykingamönnum, báðir voru yfirstýrimenn, báðir eru baukarnir fengnir í Hollandi, en á sitthvorum staðnum á sitthvoru skipinu. Hálstöflubaukinn sem er merktur Arsenal keypti ég í Liverpool, en ég veit ekkert um hinn, sennilega er hann á vegum Þóru. Hollenska kakóbaukinn herjaði ég út úr kokkinum á Poseidon :) Buff baukinn fann ég þegar ég var að laga til í klefa um borð eftir að við vorum við Grænland. Sleikjófötuna keypti ég þegar ég kom heim eftir mína fyrstu sólarlandaferð, og mig minnir að hún hafi skroppið saman þegar ég flutti suður. Og kökubaukinn fékk ég frá kokkinum líka.

    Róbert Stefán

    SvaraEyða
  3. Best að ég bæti við hérna: strepsilsbaukinn gróf ég upp í tiltekt í listasmiðjunni í vinnunni minni. Fannst hann svo lítill og krúttlegur og ákvað að taka hann handa þér. Chupasleikjófatan er keypt í fríhöfninni árið 2006 þegar við Róbert Stefán komum heim eftir okkar fyrstu sólarlandaferð. Hún var svona beygluð þegar við keyptum hana.

    SvaraEyða
  4. Takk fyrir tiltektina Þóra mín. Svo hef ég lúmskan grun um að þú hafir bara sest á fötuna en viljir ekki muna það :)

    SvaraEyða