þriðjudagur, 8. febrúar 2011

7. Fyrsti baukurinn minn

Ég veit að þeir sem þekkja mig hafa verið að bíða eftir að ég sýni mitt rétta eðli og setji hér inn baukafærslur. Þær verða margar verið þið viss, ég er þó með aðaláhersluna á gamalt fjölskyldudót og þess háttar svona til að byrja með. Það skarast fram og aftur svo að hér kemur til dæmis sá fyrsti sem ég eignaðist. Þegar ég flutti á fyrsta árinu til Akureyrar lentum við í nágrenni við góða konu. Hún var einhleyp og mikið til aðstoðar á heimili systur sinnar sem var heilsutæp. Við leigðum ofurlitla íbúð í húsi systurfjölskyldunnar í Lækjargilinu og varð talsverður samgangur enda þröngt búið, fjögur börn í hvorri íbúð, við vorum tvö á fyrsta árinu og elsta hefur varla verið meira en 8 eða 9 ára. Konan sem ég er að minnast hét hjá okkur Stína. Hið opinbera hefur vafalaust talið að hún héti Kristín en það er ekki mitt mál. Hún varð okkur nánast sem amma enda höfðum við systkin ekki náin kynni af neinni slíkri. Áttum eina móðurömmu sem ég tel að ég hafi hitt tvisvar eða þrisvar. Peningalitlar barnmargar fjölskyldur voru ekki að flengjast í ferðalögum um landið í tíma og ótíma á sjötta áratugnum. Stína varð sjálfsögð í öllum skírnar og fermingarveislum og hún hélt okkur jólaboð og alltaf stóðu hennar dyr okkur opnar. Mér þætti fróðlegt að vita aldur hennar, mér fannst hún alltaf gömul en það er ekkert að marka, dómgreind krakka er svolítið óviss þegar um aldur fólks er að ræða. Spyr mömmu, mömmur eiga að vita allt. Hún bara svarar ekki símanum núna.
Stína gaf mér í afmælisgjöf þennan fína bauk:
Ég veit ekki hvenær, en miðað við það sem ég man að ég geymdi í honum þegar ég var krakki er ég viss um að ég hef ekki verið meira en svo sem 8 ára. Þetta varð mín aðal hirsla og þarna mátti finna til dæmis eldspýtnastokkasafn, hárlokk af sjálfri mér lítilli, lítin plastgítar með mynd af bítlunum og sitthvað fleira. Fæst af þessu er ennþá til. Síðar fór að eiga þarna heima ýmislegt saumadót en núna eru það þráðarleggir með handspunninni ull og spávölur. Þetta er trúlega allt til marks um þroskaferil minn eða hvað?
Ég hef bara séð einn annan svona bauk og hann átti Stína sjálf.
Uppfært: Stína var fædd 1912 og ég 1956. Hún var sem sagt á svipuðum aldri á þessum árum og ég er núna :) Mér datt það í hug.

2 ummæli:

  1. Hæ vinkona.
    Svona baukur er til heima hjá mér og er eini löggilti baukurinn til að geyma loftkökur fyrir jólin. Ekki veit ég hvenær hann kom inn á heimilið - en amma mín fékk hann :)
    kv/ msj

    SvaraEyða